Enn og aftur hefur þurft að grípa til lokunar aðal- og barnalaugar Vesturbæjarlaugar vegna viðhaldsframkvæmda. Á síðustu mánuðum hefur lauginni ítrekað verið lokað vegna vandamála með málningu í laugarbotninum.
„Við erum að skoða þrjú atriði,“ segir Rúnar Ingi Guðjónsson, deildarstjóri viðhaldsdeildar hjá Reykjavíkurborg spurður um orsakirnar.
„Það er fyrst og fremst málningarvinnan sjálf, þó við teljum reyndar ólíklegt að hún hafi klikkað. Síðan er það efnið, við erum að skoða hvort galli hafi verið í glærunni, og í þriðja lagi uppbyggingin sjálf á steypunni í sundlaugarbotninum.“
Að sögn Rúnars hyggst borgin fá tvær verkfræðistofur til að skoða málið nánar og nú sé verið að leita eftir tilboði.
„Við ætlum að háþrýstiþvo kerið að innan og prófa að opna aftur. Ef það reynist hins vegar vera viðvarandi vandamál, þá þurfum við einfaldlega að loka lauginni aftur,“ tekur Rúnar fram.
Ef hreinsunin skilar árangri gæti Vesturbæjarlaug verið opnuð aftur í næstu viku. „Ef þetta gengur upp erum við að tala um að opna einhvern tímann í næstu viku,“ segir hann.
„Ef í ljós kemur að um alvarlegra vandamál er að ræða, þá verður lokunin lengri.“
Spurður hvort ljóst sé hver beri ábyrgð á vandanum segir Rúnar að það sé ekki komið á hreint.
„Við höfum ekki enn getað tekið sýni úr botninum því til þess þarf að loka alveg. Upphafleg áætlun var að fara í stóra greiningarvinnu næsta vor en í ljósi aðstæðna urðum við að loka núna.“
Rúnar segir að í síðustu framkvæmdum hafi verið gengið lengra en áður til að leysa vandann.
„Við slípuðum alla gömlu málninguna burt og byggðum yfir hana til að tryggja að flögnunin kæmi ekki aftur. Við horfum nú til þess að eftir að olía var bönnuð í þessari tegund málningar hafi viðloðunin minnkað. Það er eitt af því sem við viljum láta skoða nánar og fá álit á.“
Að hans mati gæti þurft að endurhugsa viðhaldsaðferðir til framtíðar.
„Aldur byggingarinnar og gæði steypunnar skipta miklu máli, þetta hefur allt sinn líftíma. Við erum því líka að skoða stærri lausnir eins og að nota sérstaka sundlaugadúka í stað málningar.“
Lauginni er nú lokað í fjórða sinn á nokkrum mánuðum, en nær þó lokunin aðeins til aðal- og barnalaugar.
Fyrst var henni lokað 26. maí, en lokunin dróst á langinn og laugin var ekki opnuð aftur fyrr en 19. júní. Þá var henni aftur lokað 18. ágúst og opnuð viku síðar. Enn á ný þurfti að loka lauginni í sólarhring 29. ágúst. Eftir það hafði hún verið opin fram að lokun á mánudaginn.