„Oft er þessi saga varðandi útfærsluna á íslenskum hafsvæðum teiknuð þannig upp að Ísland hafi farið gegn reglum þjóðaréttar um hafið og haft sigur á stórveldum og upp frá því gengið út frá nýju regluverki,“ segir dr. Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans á Bifröst, sem meðal annarra lærdómsgráða hefur lokið meistaraprófi í hafrétti frá Háskólanum í Miami og doktorsgráðu í sömu fræðigrein frá Edinborgarháskóla.
Hann ræðir við mbl.is í tilefni þess að 50 ár eru í dag liðin frá því að Íslendingar færðu fiskveiðilögsögu sína úr 50 í 200 sjómílur 15. október 1975.
Bjarni segir framangreinda túlkun þó varasama á háttsemi íslenskra stjórnvalda í þorskastríðunum sem svo voru kölluð. „Þetta hefur verið hálfgert þema í umræðunni en heimurinn virkar bara ekki svona og sagan er mun flóknari, hún tengist tækniframförum og breytingum á skipan alþjóðakerfisins á síðari hluta 20. aldar,“ segir prófessorinn.
Segir hann söguna af útfærslunni mun frekar vera sögu af því hvernig Ísland nýtti sér hugmyndir sem höfðu verið ryðja sér til rúms alþjóðlega og var virkur gerandi í framþróun sem af þeim spratt. „Þetta er meira sigur Íslands innan ramma alþjóðakerfisins frekar en utan hans,“ heldur hann áfram, samtakamáttur og sameiginlegir hagsmunir ríkja Rómönsku-Ameríku, Afríkuríkja og nokkurra annarra, þar á meðal Íslands, hafi verið í öndvegi.
„Þarna er ríkjahópur sem er að berjast fyrir þessu en skoðum hvaðan þessar útfærslur koma. Af hverju var byrjað að breyta þessu?“ spyr Bjarni. „Þetta hófst allt með hinni svonefndu Truman-yfirlýsingu skömmu eftir lok síðari heimsstyrjaldar þegar Harry S. Truman Bandaríkjaforseti gerði tilkall til bandaríska landgrunnsins utan landhelgi og fjölmörg ríki fylgdu í kjölfarið. Þarna var verið að sækjast eftir olíu- og gasauðlindum á hafsbotni sem var þróun sem tækniframfarir keyrðu áfram,“ útskýrir Bjarni.
Í kjölfar krafna um landgrunnið hafi svo fylgt kröfur um hafið fyrir ofan landgrunnið, „til dæmis gerðu Síle og Perú kröfu til hafsvæðisins að 200 sjómílum árið 1947 og árið 1952 bættist Ekvador við og þessi þrjú ríki sendu frá sér hina svokölluðu Santiago-yfirlýsingu. Þarna er búið að setja þetta 200 sjómílna viðmið sem birtist til dæmis í lögum númer 44/1947 um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins sem er upphafið hérlendis. Þar var ráðherra veitt heimild til að setja reglur um verndun fiskimiða og takmörk verndarsvæða við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins eða svæðis allt að 200 sjómílum utan grunnlína. Þarna er komið þetta 200 sjómílna mark, sama ár og Síle og Perú eru að hafa sig í frammi. Svo þarna sést að þeir sem störfuðu í þessu fyrir Ísland voru með á nótunum,“ segir Bjarni.
Eykur hann því við að Ísland hafi verið í fararbroddi í Evrópu í þessum efnum, jafnvel í fararbroddi vestrænna ríkja en önnur vestræn ríki sem opin voru fyrir hugmyndum um útvíkkun lögsögu á hafinu hafi verið Noregur og Kanada sem dæmi.
Varar Bjarni við því að horft sé á þróunina í séríslensku ljósi þjóðar sem boðið hafi Bretum birginn. „Þetta er miklu stærra og sótt var að Bretum úr öllum áttum vegna fyrrverandi nýlenda þeirra í þessum efnum,“ segir Bjarni og beinir sjónum að því sem raunverulega hafi verið að gerast þegar Ísland fór í sína vegferð að 200 sjómílunum.
„Þarna er þessi af-nýlenduvæðing að eiga sér stað, fullt af nýjum ríkjum komið til og þessar fyrrverandi nýlendur vilja aukið aðgengi að auðlindum og það er eiginlega bara stemmning fyrir að færa út lögsögu á hafinu. Ísland notfærir sér þessa stemmningu,“ segir Bjarni.
Sögulega séð segir hann eitt lykilatriða hafréttar að tryggja frjálsar siglingar. „Frelsi til siglinga er gríðarlega mikilvægt fyrir alþjóðaviðskipti og eins hernaðarhagsmuni. Og það er þannig að þegar Bandaríkin og Sovétríkin eru þarna á bak við tjöldin og vinna hreinlega saman, af því að þau höfðu þá hagsmuni að tryggja siglingafrelsi, þá er hægt að bakka með að halda uppi ýtrustu kröfum varðandi það að þessi hafsvæði verði ekki færð út með tilliti til auðlindanýtingar, þannig að þarna eru ýmis hrossakaup í gangi,“ segir Bjarni.
Hann segir stórveldin hafa sætt sig við að gefa eftir ýtrustu kröfur sínar um frelsi úthafsins þegar kemur að auðlindum í því skyni að tryggja hernaðarhagsmuni og viðskiptahagsmuni sína með því að viðhalda meginreglunni um siglingafrelsi. Í samræmi við þróun mála alþjóðlega hafi Ísland útfært fiskveiðilögsögu sína í efnahagslögsögu árið 1979 en Keníumenn settu fram hugmyndina um slíka lögsögu fyrstir allra árið 1971.
Bjarni segist stundum hafa fundið fyrir því í umræðu um íslenska hafréttarsögu að útfærslan í 200 mílur árið 1975 hafi verið einhvers konar endamark. „Þetta var bara eitt skref af fjölmörgum og ein af afleiðingum útfærslunnar í 200 sjómílur var að dómsmálum um ólöglegar veiðar erlendra aðila við Íslandsstrendur snarfækkar,“ segir prófessorinn.
„Frá stofnun Hæstaréttar og til 1975 fjallar hann um yfir eitt hundrað mál sem snerta ólöglegar veiðar, ekki alltaf ólöglegar veiðar erlendra aðila en dómarnir eru engu að síður fjölmargir og þetta er bara ekki jafn algengt lengur og svo þegar Ísland er komið með 200 sjómílna fiskveiðilögsögu og efnahagslögsögu þarf að semja við önnur ríki vegna þess að lögsögur skarast, til dæmis við Noreg vegna Jan Mayen og eins við Danmörku vegna Grænlands og Færeyja svo þessar síðari tíma útfærslur hanga allar saman,“ útskýrir hann enn fremur.
Öll saga þess að ríki sækist eftir náttúruauðlindum hangir saman að sögn Bjarna sem minnist á deilur um fullveldisréttindi á hinu svonefnda Hatton-Rockall svæði í Atlantshafi sem hluta af langri og sögulegri heildarmynd deilna ríkja um yfirráð hafsvæða.
„Kannski má eftir allt spyrja hvort það hafi verið góð hugmynd að færa fiskveiðilögsögu Íslands í 200 sjómílur,“ veltir Bjarni fyrir sér. „Vissulega hefur þetta gengið vel á Íslandi í alþjóðlegu samhengi, hér hefur verið kvótakerfi sem hefur virkað, en sums staðar annars staðar hefur þetta verið hrein hörmung sem tengist bara innri uppbyggingu hvers ríkis og hversu skipulögð þau eru. Þetta var gott fyrir Ísland en um leið má setja spurningarmerki um hvort þetta hafi verið gott alþjóðlega fyrir öll ríki veraldar,“ segir hann.
Minnir prófessorinn á að fleira hangi á spýtunni, hafréttur hafi oft verið álitinn eins konar útvörður kapítalismans með þeim hætti að hann tryggi frjálsar siglingar og aðgengi strandríkja að lögsögu vegna auðlinda á borð við olíu og gas. „Þetta er einn angi þess að önnur ríki en bara þessi gömlu stórveldi komist í auðlindir,“ segir hann og bendir um leið á að nýverið, í sögulegu samhengi, blandist svo umhverfissjónarmið inn í hafréttinn.
Undir lokin kveðst Bjarni óska eftir því að hreinsun á hugtökum eigi sér stað í lagasafninu. „Nú er talað um efnahagslögsögu, fiskveiðilandhelgi og fiskveiðilögsögu sem hafa oft sömu merkinguna en þó eru blæbrigði á. Fiskveiðilandhelgi er til dæmis ekki það sama og landhelgi sem er enn bara tólf sjómílur, ef ég man þetta rétt eru tíu hugtök notuð um íslensk hafsvæði,“ segir hann.
Sagan sé oft áhugaverðari en hún er teiknuð upp. „Auðvitað þurfti kjark til að fara á móti Bretlandi og þetta gerðist ekkert af sjálfu sér, þarna voru teknar djarfar ákvarðanir og stórveldi reyna að berja á öllum sem fara fram með eitthvað svona. Hefði Ísland verið eitt í þessu efast ég um að þetta hefði náð fram að ganga en þetta var alþjóðleg hreyfing sem var að verða á þessum tíma á þessum vettvangi,“ segir dr. Bjarni Már Magnússon, lagaprófessor og eitt helsta átorítet Íslands um hafrétt, að lokum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.

