Var á meira en 130 km hraða þegar hann ók á konuna

Kortið sýnir leið konunnar og ökumannsins áður en slysið varð.
Kortið sýnir leið konunnar og ökumannsins áður en slysið varð. kort/RNSA

Ökumaður sem ók á konu á Sæbraut í Reykjavík í september í fyrra með þeim afleiðingum að konan lést samstundis var á meira en tvöföldum hámarkshraða þegar slysið varð. Gögn sýna ýmist að hann hafi ekið á 132 eða 143 km hraða.

Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa um banaslysið sem varð skömmu eftir miðnætti 29. september 2024.

Í atvikalýsingu segir að konan hafi gengið þvert yfir Sæbraut við gatnamótin að Súðarvogi á móti rauðu gönguljósi.

Á sama tíma var Audi A4-fólksbifreið ekið til norðurs eftir Sæbraut en ökumaðurinn var einn í bifreiðinni. Bílnum var ekið á konuna á vinstri akrein götunnar með þeim afleiðingum að hún lést samstundis.

Sá ekki konuna

Engin hemilför voru eftir bifreiðina en að sögn ökumannsins sá hann ekki konuna þar sem hún gekk yfir Sæbrautina.

Vegna aldurs Audi-bifreiðarinnar var ekki mögulegt að sækja gögn um hraða hennar þegar slysið varð en gögn úr síma ökumanns sýna að hann hafi ekið á 143 km hraða þegar slysið varð. Samkvæmt útreikningi á áætluðum hraða, byggðum á rannsókn á myndbandi af bifreiðinni, var henni ekið á 132 km/klst.

Hámarkshraði á staðnum sem slysið varð er 60 km/klst og því liggur fyrir að ökumaðurinn keyrði á meira en tvöföldum hámarkshraða.

Í niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram að hraðaaksturinn hafi verið meginorsök slyssins en sú staðreynd að konan gekk yfir á rauðu ljósi er líka nefnd sem orsök.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert