Vill meirihluta með flokkum sem vilja breytingar

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, í borginni.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, í borginni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur í nýrri könnun Gallup um fylgi flokka í borgarstjórn Reykjavíkur og bætir við sig þremur borgarfulltrúum samkvæmt niðurstöðunni.

Hildur Björnsdóttir, oddviti flokksins í borginni, segir niðurstöðuna staðfesta þann meðbyr sem flokkurinn hafi fundið fyrir á undanförnum mánuðum. Hún tekur m.a. fram að hún vilji helst mynda meirihluta með flokkum sem vilji breytingar í borgarkerfinu.

„Það er auðvitað gríðarlega ánægjulegt að fá svona fylgismælingu og hún staðfestir þann meðbyr sem ég hef fundið fyrir á síðustu mánuðum,“ segir Hildur í samtali við mbl.is.

Staða sem við viljum finna okkur í eftir kosningar

„Það sem er ekki síður ánægjulegt er að sjá að þarna mælumst við með nýja borgarfulltrúa og erum í ákveðinni lykilstöðu við myndun meirihluta. Það er auðvitað staða sem við viljum finna okkur í eftir kosningar,“ bendir hún á í kjölfar útkomunar úr könnun Gallup sem gerð var fyrir Viðskiptablaðið.

Aðspurð um möguleg samstarfsform eftir kosningar segir Hildur að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ætíð gengið óbundinn til kosninga, en sé reiðubúinn að vinna með þeim flokkum sem vilji ráðast í raunverulegar breytingar á starfsemi borgarinnar.

„Við erum fyrst og fremst reiðubúin að mynda meirihluta með flokkum sem vilja ráðast í breytingar í borgarkerfinu. Það er ótal margt sem þarf að breytast innan borgarinnar,“ segir hún og nefnir þar meðal annars samgöngumál, skipulagsmál, leikskólamál og húsnæðisuppbyggingu.

„Við þurfum að breyta áherslum í samgöngu- og skipulagsmálum ásamt því að ráðast í enn kröftugri húsnæðisuppbyggingu. Við höfum jafnframt viljað taka skólamálin mun fastari tökum og setja skýrari kröfur um árangur. Og svo auðvitað leikskólavandinn, sem við höfum viljað leysa með mun fjölbreyttari lausnum en nú standa til boða,“ segir Hildur.

Vill leiða listann í komandi kosningum

Hún staðfestir jafnframt að hún hyggist áfram leiða listann í komandi borgarstjórnarkosningum.

„Ég hef gefið kost á mér í oddvitasæti og við höfum verið á góðri siglingu undir minni forystu. Ég vil endilega fá að halda því áfram,“ segir hún að lokum.

Gengið verður til sveitarstjórnakosninga þann 16. maí 2026.
Gengið verður til sveitarstjórnakosninga þann 16. maí 2026. mbl.is/Jón Pétur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka