Vopnuð átök milli fanga á Litla-Hrauni

Annar fanganna beitti eggvopni.
Annar fanganna beitti eggvopni. mbl.is/Árni Sæberg

Átök brutust út á milli tveggja fanga í útivistartíma á Litla-Hrauni í dag. Mennirnir tveir sæta einangrun á meðan lögregla rannsakar málið. Þetta staðfestir Kristín Eva Sveinsdóttir, forstöðumaður Litla-Hrauns. 

„Þetta gerist í útivist í dag, við vitum ekki aðdragandann, það er verið að skoða það í rólegheitum. Við tilkynnum þetta til lögreglu og þeir sjá um að rannsaka það,“ segir Kristín Eva við mbl.is.

Rúv greindi fyrst frá.

Ekki vitað hvers konar vopn var á lofti

Annar fanganna hlaut skurð á hendi en að sögn Kristínar er ekki hægt að staðfesta hvers konar vopn var á lofti við slagsmálin.

„Við eigum bara eftir að skoða betur myndefnið til að staðfesta hvaða vopn var notað, eða lögreglan fær afrit af þessu myndefni og skoðar það.“

Hún segir sem betur fer engir meiriháttar áverkar hafi orðið á neinum, en fangaverðir gripu fljótt inn í.

Málið til rannsóknar hjá lögreglu

Aðspurð segir hún lögregluna sjá alfarið um rannsókn málsins og þar með talið hvernig vopn af einhverju tagi hafi komist inn í fangelsið.

„Við þurfum að skoða allar innanhússreglur hjá okkur og á meðan eru menn settir í svokallaðan aðskilnað, sem er í raun annað orð yfir einangrun, á meðan við skoðum hvaða viðurlögum við getum beitt við þessu atviki.“

Að sögn Kristínar má slíkur aðskilnaður standa yfir í sólarhring og eftir það er tekin ákvörðun um hvort menn fái einhver agaviðurlög, sem geta þá verið einangrun í einhverja daga, eða hvort að menn séu taldir það hættulegir að þeir þurfi að vistast í öryggisklefa eða á öryggisgangi.

„Þannig það er eitthvað sem við skoðum bara betur þegar við áttum okkur á atburðarrásinni.“

Geta ekki aðskilið menn í yfirfullum fangelsum

Hún segir atvikið í dag vera afleiðingar þess vanda sem fangelsismálayfirvöld hafa lengi bent á.

„Eins og við höfum talað um eru fangelsin þéttsetin og það er erfitt að aðskilja menn þegar fangelsin eru svona yfirfull. Úrræðin eru ekki þannig á Litla-Hrauni að við getum aðskilið menn, því miður er húsnæðið ekki byggt upp fyrir það.“

„Þetta er það sem við óttumst stöðugt þegar hópar blandast sem vistast ekki vel saman. Þannig við höfum rosa lítil úrræði annað en að fylgjast vel með, við náum ekkert að aðskilja menn vel að fullu á Litla-Hrauni, til þess þarf bara nýtt fangelsi sem er byggt með það að markmiði að tryggja öryggi, bæði fangavarða og skjólstæðinga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert