Jöklasýn: 1.000 myndir teknar af Skaftafellsjökli

Hrafnhildur Hannesdóttir að loknu erindinu sem var haldið í salnum …
Hrafnhildur Hannesdóttir að loknu erindinu sem var haldið í salnum Akrafjall á fjórðu hæð Hörpu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls hafa verið teknar um 1.000 ljósmyndir af Skaftafellsjökli á einu ári í tengslum við verkefnið Jöklasýn sem er unnið í samvinnu Jöklarannsóknafélags Íslands og almennings.

Þetta kom fram í máli Hrafnhildar Hannesdóttur, sérfræðings á sviði jöklarannsókna hjá Veðurstofu Íslands, á ráðstefnunni Hringborð norðurslóða sem hófst í morgun.

Verkefnið snýst um að fólk taki ljósmyndir af jöklum frá skilgreindum stöðum um allt land. Sjónskífum hefur verið komið fyrir við Skaftafells- og Skálafellsjökul þar sem aðgengi fyrir almenning er auðvelt til þess að taka myndir.

Þar fyrir utan kom Jöklarannsóknafélagið fyrir sjö statífum fyrir myndavélar síðasta sumar á stöðum þar sem aðgengið er erfiðara, þar á meðal á miðjum Skeiðarárjökli og Sólheimajökli. 

Upplýsingaskilti við Skaftafellsjökul.
Upplýsingaskilti við Skaftafellsjökul.

Fundnir voru staðir sem tiltölulega auðvelt er að komast á fyrir almenning og þar sem myndir af jöklum hafa áður verið teknar til að geta séð samanburðinn á jöklunum frá mismunandi tímum. Einnig þurfti nettenging að vera til staðar á svæðinu.

Markmið Jöklasýnar, sem heitir á ensku Extreme Ice Survey Iceland, er að safna ljósmyndum í aðgengilegan gagnabanka um breytingar á íslenskum jöklum næstu 100 árin og miðla upplýsingunum til almennings. Gögnin eiga að skapa sjónræna arfleifð til framtíðar og bætast þau við hefðbundnar jökulssporðamælingar Jöklarannsóknafélagsins.

Sterk miðlunaraðferð

„Þetta hefur tvöfalt vægi,“ segir Hrafnhildur, sem ræddi við blaðamann um verkefnið að loknu erindinu.

„Við höfum getað notað ljósmyndirnar til að hjálpa til við að teikna upp jöklana eins og þeir voru. Við erum með kort og loftmyndir og annað en þetta, í einhverjum tilfellum, staðfestir það sem önnur gögn sýna,“ segir hún og bætir við að hægt sé að nota ljósmyndirnar kerfisbundið til að teikna upp betri kort af jöklunum.

Varðandi hitt vægi verkefnisins nefnir Hrafnhildur að þegar fólk sér á ljósmynd hvernig jökull hefur rýrnað þá tengir það oft mun betur við hana heldur en kort. „Miðlunaraðferðin er mjög sterk.“

Til stendur að koma upp fleiri statífum fyrir myndavélar á jöklum til að fólk geti smellt af myndum en Hrafnhildur segir erfitt að átta sig á því hvar í myndarammanum jökullinn verði og þar með getur verið erfitt að ákveða hvar best sé að setja niður statífin.

„Svo eru líka sumir staðir sem er erfiðara og erfiðara að komast á. Það þarf að reyna að hugsa fram í tímann hvaða staðir henta til þess að setja þetta upp.“

2.400 ferkílómetra rýrnun

Í erindi sínu greindi Hrafnhildur frá því að jöklar á Íslandi hefðu rýrnað um 2.400 ferkílómetra frá árinu 1890 til 2025. Spurð nánar út í stöðu mála segir hún bráðnunina hafa gerst hraðar frá árinu 2000. Síðustu 20 árin hafi þeir rýrnað um að meðaltali 40 ferkílómetra á ári.

Sporðamælingar hafi jafnframt sýnt að á nokkrum stöðum séu jöklar að hörfa um 100 til 200 metra á einu ári. Þar séu víða komin jökullón fyrir framan sem gerir það að verkum að sífellt erfiðara er að framkvæma sporðamælingarnar. Í staðinn er meðal annars notast við gervitunglamyndir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka