Bíða í „svartholi biðlistanna“

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Alma Möller heilbrigðisráðherra tókust á …
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Alma Möller heilbrigðisráðherra tókust á um biðlistamál barna á Alþingi í dag. Samsett mynd

Alma Möller heilbrigðisráðherra var ekki sátt með framsetningu á spurningu Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns Sjálfstæðisflokksins, þegar kom að málefnum Ljóssins og fjárveitingu til þess í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi nú í dag. „Þetta er auðvitað ekki boðlegur málflutningur,” sagði Alma um málflutning Guðrúnar.

Guðrún gerði biðlista barna í heilbrigðiskerfinu að umtalsefni og vísaði meðal annars til þess að 717 börn væru á bið hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð og að mikill meirihluti þeirra hefði beðið í meira en 3 mánuði og stundum í 3-4 ár.

Segir stöðu biðlista ekki standast lög

Sagði Guðrún að sú staða sem væri uppi stæðist ekki lög um farsæld barna, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, samning um réttindi fatlaðs fólks og lög um sjúkratryggingar, sem hún sagði kveða á um snemmtækan og aðgengilegan stuðning. „Börn missa dýrmætan tíma. Vandinn vex og kostnaður framtíðar eykst,” sagði Guðrún og bætti því við að hún vissi að í sumum tilfellum væri uppgefinn tími hjá talmeinafræðingi 38 mánuðir.

Jafnframt væri bið eftir geðheilbrigðisþjónustu mæld í mánuðum og árum og sálfræðiþjónusta víða ótrygg. „Þetta er ekki velferð á borði,” sagði Guðrún og bætti við að fólk lifði í „svartholi biðlistanna.“

Óskaði hún svara frá Ölmu um aðgerðir til að stytta biðlista og hvort horft væri til einkaframtaksins til að stytta þá lista.

Horfa til aðkomu einkaaðila

Alma sagði rétt að biðlistar barna væru víðast hvar gríðarlega langir og þegar hún hafi tekið við sem ráðherra í janúar hafi á fjórða þúsund börn beðið eftir ADHD-greiningu. Sagði hún eitt af áherslumálum ríkisstjórnarinnar að stytta þessa biðlista.

Sagði Alma að meðal annars hefði verið byrjað á að bæta við tveimur stöðugildum á geðheilsumiðstöð barna og fara í frekari greiningar á því hvernig hægt væri að nota rafrænar lausnir til að stytta ferlið. Þá væri ráðuneytið í samvinnu við mennta- og barnamálaráðuneytið um tilraunaverkefni um ADHD-greiningu þar sem skólarnir væru nýttir betur. Þá hafi tímabundið viðbótarfjármagn verið sett inn til að vinna niður biðlista. Einnig væri til skoðunar að bjóða út til einkaaðila greiningarvinnu.

Sterk velferð eða skert velferð?

Guðrún tók vel í svar Ölmu um mögulega aðkomu einkaaðila en gagnrýndi stöðuna og vísaði í slagorð Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar um sterka velferð og stolta þjóð. Sagði hún að réttara væri kannski að segja skert velferð í því samhengi. Þá vísaði hún til þess að grasrótin væri látin sjá um grunnþjónustu sem ríkið gæti ekki séð um og benti Guðrún á Ljósið,endurhæfingarmiðstöðð fyrir krabbameinssjúklinga. Sagði hún að ríkisstjórnin hefði meðal annars ákveðið að skerða framlög til Ljóssins um 200 milljónir.

Ekki á vakt núverandi ríkisstjórnar

Alma var ekki sátt með orðræðu Guðrúnar og sagði ljóst að heilbrigðiskerfið væri í gríðarlegri innviðaskuld, en að sú skuld hafi ekki orðið til á vakt núverandi ríkisstjórnar. Sagði hún forgangsverkefni að ná tökum á efnahagsmálum svo samfélagið hefði efni á velferð. Þá upplýsti hún um að samningar hefðu náðst á milli Sjúkratrygginga og Ljóssins um samninga í ár.

„En þetta er auðvitað ekki boðlegur málflutningur að halda því fram að verið sé að skerða fjárframlög tilLjóssinss þegar þetta var einskiptis fjárveiting frá háttvirtri velferðarnefnd,“ sagði Alma um þá skerðingu sem Guðrún hafði vísað til. Bætti hún því við að ekki væri loku fyrir það skoðið að veitt verði inn viðbótarfjármagn í meðferð þingsins á fjárlögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert