„Þetta væri mjög óvenjulegur fyrirboði eldgoss ef þannig færi. Þetta er reyndar þekkt víðar í hellum á Íslandi og menn hafa tekið eftir því sama og er sennilega vegna veðurfarsbreytinga. Veðurfar er að hlýna og hellar sem áður voru fullir af ís eru það ekki lengur, þannig að þetta á við um fleiri hella,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus í samtali við Morgunblaðið.
Leitað var álits hans á því hvort bráðnun íss í svokölluðum Íshelli í Purkhólum í hlíðum Snæfellsjökuls gæti mögulega verið undanfari eldgoss í jöklinum.
Í grein sem birtist nýverið í spjallhópnum Hellissandur, Rif og Gufuskálar og finna má á Facebook veltir Sigurd Snæfell Sigurðsson vöngum yfir því hvort bráðnun íss í fyrrnefndum íshelli kunni að vera fyrirboði eldgoss í jöklinum.
Kveðst hann hafa fylgst með hellinum í áratugi og breytingarnar sem hann hafi séð veki hann til umhugsunar um virkni undir Snæfellsjökli og hvort þar gæti leynst fyrirboði eldgoss.
Segir hann að árið 1985 þegar hann kom ásamt félögum sínum fyrst niður í Íshelli hafi gólfið verið þakið ís og grýlukerti hangið niður úr loftinu. Þegar hann heimsótti hellinn á nýjan leik árið 2004 hafi önnur mynd blasað við og ísinn horfinn.
„Ég tel að hitun neðan frá, þ.e. jarðhiti sem leitar upp frá jörðu, hafi brætt ísinn. Þetta bendir til að hitastig og jarðhiti undir svæðinu séu að breytast og því tel ég brýnt að komið verði fyrir mælitækjum sem fylgjast með hita, raka og gasi í Íshelli og Vatnshelli. Slíkar mælingar gætu veitt dýrmætar vísbendingar um jarðfræðilega virkni og jafnvel fyrirboða eldgoss í Snæfellsjökli,“ segir Sigurd Snæfell í greininni.
„Það er ekkert sem bendir til þess að gos sé yfirvofandi í Snæfellsjökli. Þessir venjulegu vísar sem við notum til að bera kennsl á slíkt sýna enga slíka virkni, þannig að það er ekkert sem bendir til goss,“ segir Páll.
Hann segir að hitafrávik í eldfjöllum séu þekkt og tengist venjulega því sem búið sé að gerast, en séu ekki undanfari einhverra atburða.
„Menn sjá gjarnan hitafrávik eftir eldgos, innskot eða kvikuvirkni. Hiti breiðist mjög hægt út í jarðskorpunni þannig að hann er ekki algengur fyrirboði eldgoss og er ekki meðal þess sem menn nota til að segja fyrir um eldgos,“ segir Páll og bendir á að betra sé að líta þar til skjálftavirkni, ásamt landrisi og landsigi. Það séu miklu vænlegri fyrirboðar eldgosa.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
