„Það er enginn vafi á því að Rio de Janeiro er ein fallegasta borg heims,“ segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor emeritus í stjórnmálafræði, en hann þekkir borgina mjög vel og kom þangað fyrst árið 1993 og býr nú þar hluta ársins. „Ég hef farið mjög víða en hvergi er jafn fagurt um að litast og í þessari dásamlegu borg, bæði fjöllin, ströndin og allt umhverfið er alveg einstakt.“
„Brasilíumenn eru mjög glaðlyndir og hjálpsamir og þeir fundu eina lausn á kynþáttavandanum sem hrjáir marga og hún er einfaldlega sú að blanda saman öllum kynþáttunum,“ segir Hannes og bendir á að langflestir Brasilíumenn séu af blönduðum kynþáttum og líklega hvergi í heiminum meiri blöndun en einmitt þar.
Það er sambatónlistarandi í borginni sem rekja má til þessarar miklu kynþáttablöndunar, en Brasilíumenn eru þekktir fyrir sína háttbundnu sambatónlist sem endurspeglar lífsgleði íbúanna. Fótboltaáhugamenn vita að brasilískir knattspyrnukappar spila heldur engan venjulegan fótbolta, því dansinn er þeim í blóð borinn og margir segja að brasilíski boltinn sé eiginlega þeirra einstaka listform þar sem þeir spila létt og leikandi, öðruvísi en allir aðrir.
„Það er í rauninni þrennt sem allir þurfa að gera sem koma til Rio de Janeiro. Í fyrsta lagi er ógleymanleg upplifun að fara upp á Sykurhleifinn (Pão de Azúçar). Þaðan er mjög gott útsýni yfir borgina. Síðan er að fara upp að Kriststyttunni, sem er í öðru fjalli, og þaðan sérðu annað sjónarhorn yfir borgina sem er einnig stórkostlegt,“ segir Hannes, en Kriststyttan er eitt þekktasta kennileiti borgarinnar og ber kaþólskri trú íbúanna vitni.
„Í þriðja lagi þurfa menn að fara á strendurnar tvær, Copacapana og Ipanema, en lífið í Ríó snýst að miklu leyti um strandlífið og margir muna eftir bossanova-laginu Stúlkan frá Ipanema sem var mjög vinsælt á sínum tíma.“
„Það er urmull af góðum veitingastöðum, bæði dýrum og ódýrum, í þessari stórborg. Það búa tólf milljónir manns á öllu svæðinu og sex milljónir í sjálfri borginni, og mikið af útiveitingastöðum við ströndina. Brasilískur matur er hollur og staðgóður. Þeir elda mikið af kjúklingi eða öðru kjöti og hrísgrjón sem sést í þjóðarrétti þeirra, feijoada, sem er kjöt í sósu með svörtum baunum og hrísgrjónum,“ segir Hannes en bætir við að alls konar alþjóðlega veitingastaði megi finna í borginni og m.a. sé mikið af góðum sushi-stöðum og ítölskum og frönskum veitingahúsum. „Svo má ekki gleyma brasilísku steikhúsunum sem eru kölluð Churrascaria, sem eru víða,“ segir hann og segist mæla með því að gestir fari allavega eitt kvöld á slíkan stað og bætir við að þar sé kjöt sneitt niður af teinum og sé oft mikið fjör á þessum stöðum.
„Þjóðardrykkur Brasilíu er Caipirinha, sem er sykurbrennivín, límónusafi, sykur og mulinn ís, sem er mjög ferskur og góður að drekka á ströndinni. Síðan eru ávaxtadrykkir einstaklega góðir og vinsælir. Þar má nefna Açaí sem er úr bláum berjum sem eru tínd í Amazón-skóginum og er mjög góður, en bæði ávextir og ávaxtadrykkir eru mjög góðir í Ríó.“
Þegar kemur að næturlífinu í Ríó segir Hannes að fjörið sé aðallega í hverfinu Lapa. „Þar er mikið af börum og veitingastöðum sem bjóða upp á lifandi tónlist, en hverfið er í miðborginni og aðeins fyrir utan hefðbundna ferðamannasvæðið í suðurhluta borgarinnar við strendurnar, svo það þarf að gæta varúðar. Ég held að það sé samt ekkert hættulegt ef fólk fer saman í hóp. En reglan er þessi að ef þú ferð varlega, þá kemur ekkert fyrir þig. En ef þú ferð ekki varlega er mjög líklegt að eitthvað komi fyrir þig.“
Í Brasilíu er sumartíminn í desember, janúar og febrúar og Hannes segir að þá sé meðalhitinn um 28 stig, en geti orðið eitthvað hærri. „Það er frekar heitt, en alls ekki svo að ami sé að. Svo stendur Rio náttúrulega við sjóinn svo hafgolan temprar talsvert hitann,“ segir hann og bætir við að það sé mun þægilegra loftslag í Ríó heldur en þar sem loftslagið er mjög rakt eins og í Miami og í Karíbahafinu.
Þegar Hannes er spurður um söfn segir hann: „Það eru flottari söfn, kirkjur og hallir í Evrópu, en hérna er eftirsóknarverðast að skoða þetta fallega landslag í góðu veðri, njóta þess að vera á ströndinni og upplifa stemninguna hér.“ Hann segist líka mæla með að fara í opnum Landrover-bílum að skoða regnskóginn sem er í kringum Rio de Janeiro.
Nú geta félagar í Moggaklúbbnum, fríðindaklúbbi áskrifenda Morgunblaðsins í samstarfi við Kólumbus ævintýraferðir, heimsótt Rio de Janeiro, en flogið er til borgarinnar í beinu flugi í byrjun febrúar á næsta ári og dvalið í viku á Hotel Othan Rio Palace, sem er á miðri Copacabana-ströndinni. Íslenskur fararstjóri verður með í för og einnig mun íslenska Stuðlabandið vera með í för og halda tónleika á ströndinni fyrir Íslendingana og aðra gesti og gangandi.