Ekki hefur enn verið orðið við ítrekuðum óskum frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði um kynningu á þeim framkvæmdum sem enn standa yfir í húsnæði leikskólans Brákarborgar við Kleppsveg, þrátt fyrir að ráðið hafi samþykkt einróma á fundi sínum 24. september sl. að það fengi kynningu á framkvæmdunum og að þeim fulltrúum ráðsins sem þess óskuðu yrði gefinn kostur á að kynna sér framkvæmdirnar á verkstað.
Svo segir í fyrirspurn sjálfstæðismanna í ráðinu þar sem spurt er um hví umrædd kynning hafi enn ekki farið fram þrátt fyrir margítrekaðar óskir þar um. Spurt er hvort ætlunin sé að tefja umrædda kynningu og þar með framlagningu upplýsinga um yfirstandandi framkvæmdir við Brákarborg uns þær verða yfirstaðnar.
Þá er og óskað eftir sundurliðuðum upplýsingum um heildarkostnað vegna leikskólans og að grein verði gerð fyrir kostnaði við kaup á mannvirkjum og endurbyggingu þeirra, húsa jafnt sem lóða, sem og fyrir öllum kostnaði við verkefnið, þ.m.t. skýrslum ráðgjafa, hönnun, umsjón, eftirliti sem og flutningi leikskólans og leigu á öðru húsnæði á viðgerðartímanum.
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í ráðinu segir í samtali við Morgunblaðið að ekki sé einleikið hve illa hafi gengið að fá upplýsingar um þær umfangsmiklu framkvæmdir við Brákarborg sem nú standa yfir.
„Í rúma tvo mánuði hef ég óskað eftir því að fá kynningu á framkvæmdunum en við því hefur enn ekki verið orðið, þrátt fyrir loforð sviðsstjóra um kynningu og einróma samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs þar að lútandi,“ segir Kjartan.
„Lagfæringar á húsinu voru boðnar út fyrir um ári, eftir að leikskólinn hafði verið rýmdur og honum lokað vegna ófullnægjandi burðarþols. Framkvæmdum vegna lagfæringanna átti að ljúka 1. febrúar sl. en þær hafa dregist á langinn og er ekki enn lokið. Ýmsar spurningar hafa vaknað vegna framkvæmdanna, þ. á m. hvort kostnaður hafi aukist umfram tilboðsfjárhæðina, sem nam 223 milljónum króna, vegna aukins umfangs og tafa,“ segir hann.
Endurbygging Brákarborgar sé eitt mesta klúður í byggingarsögu Reykjavíkurborgar þótt af nægu sé að taka í þeim efnum. Ótal gallar hafi verið á hönnun og endurbyggingu hússins sem kosta muni skattgreiðendur milljarða.
Kjartan rifjar upp að skömmu eftir að fyrri endurbyggingu Brákarborgar lauk hafi húsið verið rýmt þegar sprungur mynduðust í burðarveggjum þess. Byggingin hafi ekki staðist gildandi staðla um burðarþol.
„Byggingin fékk á sínum tíma sérstök umhverfisverðlaun fyrir framúrskarandi vistvænar og sjálfbærar áherslur. Húsið var þó ekki sjálfbærara en svo að það hélt ekki uppi eigin þaki. Heildarkostnaður við Brákarborgarverkefnið nam 2.399 milljónum króna í júlí 2024 á núgildandi verðlagi. Við þá upphæð bætist kostnaður vegna yfirstandandi lagfæringa. Er þá enn ótalinn margvíslegur annar kostnaður,“ segir Kjartan og bendir á að skýrsla innri endurskoðunar borgarinnar um Brákarborg sé áfellisdómur yfir stjórnsýslu borgarinnar og þeim stjórnmálamönnum sem láti óstjórn í byggingarmálum viðgangast.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
