„Hefði þurft að bregðast við fyrir mörgum árum”

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins og Alma Möller heilbrigðisráðherra.
Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins og Alma Möller heilbrigðisráðherra. mbl.is/Karítas/Eyþór

Alma Möller heilbrigðisráðherra sagði að bregðast hefði átt við miklu fyrr þegar kemur að innviðaskuld í heilbrigðiskerfinu. Meðal annars þegar kemur að húsnæði og viðhaldi þess, mönnun, tækjabúnaði, rafrænum kerfum og stjórnsýslu. Þegar komi að íslenskukunnáttu starfsfólks í heilbrigðiskerfinu telur hún ekki rétt að setja kröfur um tungumálakunnáttu því það gæti gert stöðuna í kerfinu enn verri.

Alma segir innviðaskuldina koma hvað best í ljós þegar kemur að bið í geislameðferð vegna krabbameins. Alma segir hins vegar að sérstakur hópur sé nú að störfum til að skoða krabbameinsmeðferðir til framtíðar og að hann eigi að skila tillögum fyrir lok þessa mánaðar.

Meðal annars sé verið að skoða hvort byggja þurfi við núverandi byggingu þar sem krabbameinsmeðferð er veitt eða gera eitthvað annað en Alma segir að meðal annars vanti tvo línuhraðla en núverandi húsnæði leyfi ekki að þeim sé bætt við.

Þetta er meðal þess sem kom fram í svörum Ölmu við spurningu Ingibjargar Isaksen, þingmanns Framsóknarflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Langur biðtími eftir krabbameinsgreiningu

Ingibjörg vísaði til þess að í vor hefði biðtími 50% kvenna sem greindust með krabbamein verið meiri en 73 dagar. Síðan þá hafi þessi biðtími lækkað örlítið, en það helgaðist að hluta af því að konur væru nú sendar til Svíþjóðar í meðferð.

Vísaði Ingibjörg til þess að í aðgerðaáætlun stjórnvalda í krabbameinsmálum, sem samþykkt var á þinginu í vor, hafi komið fram að hámarkstími meðferða skyldi birtur opinberlega, en að ekkert hefði verið gert í þeim efnum. Spurði hún ráðherra hvað ætti að gera til að tryggja að konur með brjóstakrabbamein fái meðferð innan viðunandi tíma.

Leita til ráðningarskrifstofa erlendis

Sem fyrr segir sagði Alma að um áralanga uppsafnaða skuld væri að ræða í heilbrigðiskerfinu. „Það er alveg hárrétt, það er innviðaskuld í heilbrigðiskerfinu. Hún lýtur að húsnæði og viðhaldi þess, mönnun, tækjabúnaði, rafrænum kerfum og stjórnsýslu. Þetta endurspeglast akkúrat í bið eftir geislameðferð krabbameina. Þar hefði þurft að bregðast við fyrir mörgum árum,“ sagði Alma.

Listaði hún svo upp að þegar kæmi að krabbameinsmálum hefði verið settur á laggirnar spretthópur og út frá þeirri vinnu væri nú unnið að mönnun og launamálum geislafræðinga, vinnuskipulagi og starfsþróun. Einnig væri verið að prófa lengdan opnunartíma, fyrrverandi geislafræðingar hefðu verið ráðnir inn á deildina og að vonandi væru fleiri ráðningar í farvatninu, meðal annars með því að leitað hafi verið til ráðningarskrifstofa erlendis.

Hvað með lækna sem tala ekki íslensku?

Ingibjörg gerði í kjölfarið frétt Morgunblaðsins í morgun að umfjöllunarefni, en þar var sagt frá sjúklingi sem þurfti að gera grein fyrir veikindum sínum við lækni sem ekki talaði íslensku og lélega ensku. Sagði hún samskipti lækna og sjúklinga hornstein í kerfinu og lágmarkskröfu að einstaklingar í viðkvæmri stöðu gætu átt samskipti við lækna á íslensku.

Spurði Ingibjörg Ölmu hvort hún teldi ásættanlegt að sjúklingur gæti ekki haft samskipti á íslensku við lækni þar sem orð, blæbrigði og skilningur skipta miklu og hvort til skoðunar kæmi að setja upp kröfur um tungumálakunnáttu.

Alma tók fram að hún þekkti ekki til málsins sem Morgunblaðið hafði fjallað um, en að almennt vildi hún að heilbrigðisstarfsfólk kynni íslensku. Hins vegar væri mikill skortur á sérhæfðu starfsfólki og ef gerðar yrðu strangari kröfur um tungumálakröfur gæti staðan versnað. Vísaði hún til þess að Landspítalinn væri með íslenskukennslu og aðlögun að íslensku kerfi fyrir starfsfólk sitt og að hún horfði til þess að stofnanirnar sjálfar tækju á tungumálakunnáttu sinna starfsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert