„Hluti byggingarinnar illa farin“

Slökkviliðsmenn kasta mæðinni á vettvangi brunans.
Slökkviliðsmenn kasta mæðinni á vettvangi brunans. Ljósmynd/Slökkvilið Fjallabyggðar

Vigfús Rúnarsson, forstjóri Primex, var rétt byrjaður ásamt sínu fólki að skoða aðstæður í verksmiðju Primex á Siglufirði þegar mbl.is náði tali af honum í morgun en mikill eldur braust út í verksmiðjunni í fyrrakvöld.

„Við fengum vettvanginn afhentan frá lögreglunni seint í gær og við erum nýfarnir af stað að skoða aðstæður og munum gefa okkur góðan tíma til að kortleggja stöðuna,“ segir Vigfús við mbl.is.

Vigfús segir að við fyrstu sýn sé hluti byggingarinnar illa farinn en það sé líka hluti af húsinu sem líti vel út. Hann segist bíða eftir skýrslu frá lögreglunni varðandi hugsanleg eldsupptök.

Níu manns starfa í verksmiðjunni að sögn Vigfúsar en 24 starfa hjá fyrirtækinu.

Slökkvistarfið tók 13 klukkustundir.
Slökkvistarfið tók 13 klukkustundir. mbl.is/Sigurður Ægisson

Fram kemur í færslu slökkviliðsins í Fjallabyggð á Facebook í gærkvöld að slökkvistarf hafi tekið 13 klukkustundir og eftir það hafi tekið við bruna- og öryggisvakt en slökkviliðið hefur nokkrum sinnum þurft að fara og slökkva í glóð og eldhreiðrum eftir brunann.

„Ljóst var strax í upphafi að aðgerðir slökkviliðs yrðu umfangsmiklar og erfiðar en mikill eldur var í húsinu þegar að var komið og sjáanlegur á þriðju hæð hússins,“ segir í færslunni.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert