Frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á lögum um stuðning við einkarekna fjölmiðla var samþykkt á þingi í dag en lítil samstaða var á milli ríkisstjórnarinnar og minnihlutans við afgreiðslu málsins.
Aðallega er tekist á um hámarkshlutfall sem hver fjölmiðill getur fengið úthlutað úr þeim potti sem verja á í stuðninginn. Hingað til hefur verið miðað við að hámarkið sé 25%, en með þessum nýju lögum er hámarkið lækkað í 22%. Kemur þetta niður á tveimur fjölmiðlafyrirtækjum, Árvakri og Sýn.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar höfðu uppi stór orð um breytingarnar og sögðu þær senda undarleg skilaboð, vera vondan dag fyrir lýðræðið og að ríkisstjórnin væri að hefna sín á fréttaflutningi fjölmiðlanna sem hefði ekki verið ríkisstjórninni að skapi.
Einn þingmaður meirihlutans og einn ráðherra tóku hins vegar til varnar og sögðu að með breytingunni væri verið að dreifa stuðningnum víðar og það kæmi landsbyggðinni vel. Sögðu þeir minnihlutann þar með tala gegn því að auka stuðning við landsbyggðarmiðla.
Staða Ríkisútvarpsins kom einnig ítrekað upp í umræðunum og gagnrýndu þingmenn stjórnarandstöðunnar að ekki væri tekið á því sem Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kallaði einokunarstöðu RÚV. Tóku aðrir undir og sögðu stöðu RÚV aldrei hafa verið betri á fjölmiðlamarkaði og sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að RÚV væri sér á parti þegar kæmi að því að vera tryggt fjárhagslega þó upp kæmu hremmingar hér á landi. Stofnanir eins og Landspítalinn, Landhelgisgæslan eða lögreglan hefðu ekki slíka tryggingu, það væri aðeins Ríkisútvarpið.
Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, sagði breytingarnar „vekja upp óþægilegar spurningar og ónotatilfinningu hjá mörgum“ og að þær sendu undarleg skilaboð. Sagði hann að lausnin við þeim markaðsbresti sem væri á fjölmiðlamarkaði væri að leyfa fólki að ráðstafa sjálft hluta útvarpsgjaldsins til þess fjölmiðils sem það vildi.
Ólafur Adolfsson og Vilhjálmur Árnason, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sögðust almennt lítið spenntir fyrir að styrkja fjölmiðla, en meðan RÚV væri í yfirburðastöðu hefðu þeir skilning á því. Báðir, líkt og stjórnarandstaðan, greiddu þeir ekki atkvæði í atkvæðagreiðslu með frumvarpinu.
Vilhjálmur vakti þá athygli á því að breytingin núna kæmi í kjölfar gagnrýni ríkisstjórnarinnar á þá fjölmiðla sem frumvarpið kemur illa við. Sagði hann stöðuna sérstaklega vonda núna „þegar ríkisstjórnin ætlar að fara að hreyfa við styrkjum eftir frammistöðu fjölmiðla sem hún hefur kallað falsfréttamiðla og annað slíkt í kjölfar þess að það hafi komið slæmar fréttir af þessari ríkisstjórn.“ Bætti hann við að þetta væri „vondur dagur fyrir lýðræðið.“
Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði ekki verið að minnka framlag til einkarekinna fjölmiðla heldur að auka það til landsbyggðarmiðla. Sagði hann að þessu væru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins mótfallnir og ítrekaði að aðeins væri verið að dreifa styrkjunum betur um landið
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sá sig tilneyddan að koma í pontu og gagnrýna framsetningu Guðmundar og sagði andstöðu Sjálfstæðisflokksins ekki við að styrkja eigi landsbyggðarmiðla heldur að standa eigi vörð um núverandi kerfi, „standa hér nánast að einokun á fjölmiðlamarkaði.“
Frumvarpið var samþykkt í annarri atkvæðagreiðslu með 27 atkvæðum meirihlutans en 20 þingmenn minnihlutans greiddu ekki atkvæði og 16 þingmenn voru fjarstaddir. Breytingartillaga um að færa hlutfallið upp í 25% var felld með 27 atkvæðum gegn 16 en fjórir þingmenn Framsóknar greiddu ekki atkvæði.
Fljótlega eftir þetta var þingfundi slitið og nýr þingfundur settur svo hægt væri að taka málið til þriðju umræðu og þar með klára málið alveg.
Aftur mættu stjórnarandstæðingar í pontu og gagnrýndu frumvarpið og rifjaði Jens Garðar Helgason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, meðal annars upp þegar Inga Sæland kallaði Morgunblaðið falsfréttamiðil.
Kom gagnrýni Ingu degi eftir að fjallað var um styrkjamál Flokks fólksins þegar flokkurinn hafði fengið 240 milljónir í opinbera styrki í trássi við lög. Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, sem Jens er líklegast til að vísa til í ræðu sinni, hafði einnig verið til umfjöllunar í Morgunblaðinu nokkrum dögum áður en hann lét ummæli sín falla. Hafði blaðið fjallað um að hann hefði ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni í hagsmunaskrá.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, gaf ekki mikið fyrir málflutning minnihlutans og sagði þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki vita hvort þeir væru að koma eða fara í umræðunni. Annars vegar væri talað gegn ríkisstyrkjum en svo að heilög skylda væri á að ákveðnir fjölmiðlar fengju styrki. Þá styðji þeir framlög til landsbyggðarfjölmiðla en vilji ekki breytingar sem eykur stuðning þangað.
Þá vísaði hann gagnrýni vegna RÚV til baka á Sjálfstæðisflokkinn og spurði hvað hann hefði gert þau ár sem flokkurinn var í ríkisstjórn. Sagði Jóhann Páll að nú væri vinna í gangi í ráðuneytinu um endurskoðun RÚV á fjölmiðlamarkaði en það hefði Sjálfstæðisflokkurinn ekki getað gert í sinni ríkisstjórnartíð.
Að lokum var málið samþykkt eftir þriðju umræðu með 24 atkvæðum meirihlutans en 20 þingmenn minnihlutans greiddu ekki atkvæði.
mbl.is er í eigu Árvakurs sem gefur einnig út Morgunblaðið.