Hver mistök geta haft banvænar afleiðingar

Takamado í ræðustól í Silfurbergi í dag.
Takamado í ræðustól í Silfurbergi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Japanska prinsessan Takamado sagðist í ræðu sinni við opnunarathöfn Hringborðs norðurslóða vera ákaflega spennt fyrir því að vera komin aftur til Íslands, 29 árum eftir síðustu heimsókn.

Þar átti hún við heimsókn sína á Bessastaði árið 1996 þegar Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Hringborðs norðurslóða, var nýtekinn við embætti forseta Íslands. Sjálfur sagði Ólafur Ragnar er hann ræddi við Takamado uppi á sviði í Silfurbergi í Hörpu að hún og eiginmaður hennar, sem er látinn, hefðu verið fyrstu erlendu gestir hans á Bessastöðum.

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Takamado sagðist í ræðu sinni hafa miklar áhyggjur af loftslagsvánni sem steðjaði að heiminum og hvatti hvern og einn til að leggja sitt af mörkum. Tíminn til að skipta sköpum væri sífellt minni. Staðan væri orðin svo hættuleg að hver mistök sem við gerum núna gætu haft banvænar afleiðingar.

Hún sagði fjölda fræðimanna og stjórnmálamanna taka þátt í Hringborði norðurslóðanna og að vinna þeirra væri mikilvæg þegar kæmi að friði og góðri samvinnu.

„Við hljótum að geta notað stóra heilann okkar til að finna góða lausn. Ef við getum sent fólk til tunglsins þá ættum við að geta fundið leiðir til að vernda umhverfið,“ sagði Takamado.

Gestir í Silfurbergi.
Gestir í Silfurbergi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert