Innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar (IER) gagnrýnir harðlega stjórnsýslu og ákvarðanatöku borgarinnar við gerð samninga um nýtingu bensínstöðvalóða á árunum 2021 og 2022. Skýrsla þess efnis verður lögð fram á fundi borgarráðs í dag, en óskað var eftir henni fyrir nær einu og hálfu ári, í maí 2024.
Borgin samdi við olíufélögin um að þau fækkuðu bensínstöðvum í borginni um nær þriðjung, en að þau héldu lóðunum og skipulagi yrði breytt með þéttingu byggðar að leiðarljósi. Þá gætu þau selt byggingarréttinn, sem gæti reynst afar verðmætur. Fjölmiðlaumfjöllun og hörð gagnrýni í upphafi liðins ár varð til þess að IER var falið að fjalla um málið í heild.
Í fundargerð endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar frá því á mánudag kemur fram að nefndin hafi farið yfir skýrslu IER og telji hana „faglega unna, greinargóða og upplýsandi. Nefndin tekur undir þær úrbótatillögur sem fram koma í skýrslunni og leggur áherslu á að borgarráð bregðist við þeim með viðeigandi hætti.“
Einn nefndarmanna bókar þó einnig um að grundvöllur samninga við olíufélögin um fækkun bensínstöðva (eða dæla) hafi verið órökstuddur og alls óvíst að þeir leiddu til minni losunar CO2. Enn síður að þau markmið næðust árið 2025. Því sé ofmælt að markmið borgarinnar hafi öll verið málefnaleg.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er niðurstaða IER sú að ekki sé sýnt að Reykjavíkurborg hafi brotið lög eða reglur, en á hinn bóginn sé fjölmargt athugavert við framgöngu borgarinnar, svo mjög að hagsmuna hennar hafi ekki verið gætt sem skyldi.
Markmið borgarinnar um fækkun bensínstöðva og breytta lóðanýtingu telur IER að hafi verið bæði lögmæt og málefnaleg (með fyrrgreindum fyrirvara), en framkvæmdin hafi verið ómarkviss og skortur á gagnsæi, undirbúningi og formlegum greiningum sem tryggt hefðu hagsmuni borgarinnar og jafnræði aðila.
Eitt helsta álitaefni skýrslunnar er að ekki hafi alltaf verið ljóst hvaða málefnalegu sjónarmið lágu að baki ákvörðunum borgarinnar í samningaviðræðunum við eldsneytissala. Engar vísbendingar fundust um brot á jafnræðis- eða réttmætisreglum, en skýrt og rökstutt mat á sjónarmiðum skorti víða. IER leggur áherslu á að framtíðarverkefni á þessu sviði byggist á skýrum stjórnsýslureglum og lögbundnu mati á samkeppnislegum og skipulagslegum þáttum.
Skýrslan telur jafnframt að hagsmunir Reykjavíkurborgar hafi ekki verið nægilega tryggðir í samningum við lóðarhafa. Ákvæði um uppsagnarfresti, skilyrði uppbyggingar og verðlagningu byggingarréttar hafi ekki verið nægilega gagnsæ og ekki tryggt borginni jafnræði gagnvart einkaaðilum. Þá hafi byggingarréttargjöld og markaðsverð lóða ekki verið metin með samræmdum hætti og verulegt misræmi komið fram milli samninga.
Innri endurskoðun mun hafa látið útreikninga fylgja skýrslunni og segja heimildir blaðsins að samanlagt markaðsvirði lóðanna sé nærri 12 milljarðar króna. Það eru svipaðar upphæðir og nefndar voru í fjölmiðlaumfjöllun en Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri sem annaðist samningsgerðina, taldi fjarri lagi.
Þá bendir IER á að reglur um samkeppni og ríkisaðstoð hafi ekki verið greindar með formlegum hætti og slíka greiningu vanti tilfinnanlega, líkt og raunar munu fleiri dæmi um í sambærilegum málum. Þótt ekki sé fullyrt að nein brot hafi átt sér stað er áréttað að við ráðstöfun takmarkaðra gæða, svo sem lóða, verði að tryggja jafnræði og gagnsæi, meðal annars með opinberri auglýsingu eða kynningu.
Eins hafi borgarráð ekki fengið nægilega ítarlega faglega ráðgjöf eða greiningu þegar ákvörðun var tekin um samningana af hálfu borgarinnar. Ákvörðunartaka hafi því í nokkrum tilvikum byggst á ófullnægjandi upplýsingum.
IER mun leggja til margvíslegar úrbætur, þar á meðal að settar verði skýrar reglur og verklag um úthlutun lóða og gerð lóðarleigusamninga, að faglegt hlutverk stýrihópa og samninganefnda verði styrkt og að komið verði á kerfisbundnu mati á markaðsvirði lóða og byggingarréttar áður en samningar eru gerðir. Einnig verði samkeppnis- og lagaleg sjónarmið metin og skjalfest í upphafi allra slíkra mála.
Árið 2019 mótaði Reykjavíkurborg stefnu um verulega fækkun bensínstöðva í þéttbýli, bæði í þágu þéttingar byggðar og breyttrar landnotkunar vegna nýrra neysluhátta, m.a. vegna orkuskipta í samgöngum.
Í framhaldinu var gengið til samninga við olíufélögin um lokun tiltekinna stöðva og heimild til að undirbúa nýja uppbyggingu á sömu reitum, að uppfylltum skilyrðum um skipulag og greiðslur lögbundinna gjalda.
Borgarráð samþykkti samningana í júní 2021 og febrúar 2022, en markmiðið var að fækka stöðvum um þriðjung (12 stöðvar) og heimila blandaða byggð eftir því sem við ætti. Í samningunum var m.a. kveðið á um kauprétt Félagsbústaða á 5% íbúða og að allt að 20% gætu orðið leigu- eða búseturéttaríbúðir.
Skjótt tók að örla á gagnrýni um hvernig að samningunum hefði verið staðið, ferlið allt hefði einkennst af pukri og leyndarhyggju.
Svo mikil leynd hvíldi yfir þeim að jafnvel borgarfulltrúar fengu aðeins að skoða þá á spjaldtölvu í lokuðu „gagnaherbergi“ í ráðhúsinu, en því borið við að halda yrði trúnað við viðsemjendurna, þ.e.a.s. olíufélögin eða eignarhaldsfélög þeirra. Í samtölum við Morgunblaðið árið 2022 báru stjórnendur þeirra þó á móti því að þeir hefðu krafist nokkurs trúnaðar um lóðirnar.
Íbúar úti í hverfunum gagnrýndu þetta laumuspil og þótti tilfinnanlega skorta á samráð um þeirra næsta nágrenni. Ekki síst átti það við umhverfis Ægisíðulóðina, en íbúar bentu á að innviðir hverfisins væru fyrir löngu komnir að þolmörkum, þó ekki bættist við ný og þétt byggð inni í grónu hverfi.
Aðrir fundu að því að með þessum ráðum hefði borgin fengið olíufélögunum veruleg verðmæti í hendur á silfurfati. Félögin hefðu leigt lóðirnar undir bensínstöðvar en ekki aðra notkun, og mættu að óbreyttu ekki ráðstafa þeim til annars. Fyrir lá að olíufélögin vildu loka sumum stöðvunum, en þá hefðu þau undir venjulegum kringumstæðum þurft að skila borginni lóðunum.
Auk þess væri stutt í að lóðarleigusamningar einhverra þeirra rynnu einfaldlega út og borginni þá frjálst að ráðstafa þeim í annað, en ágóðinn hefði runnið í borgarsjóð. Sá háttur hefur t.d. verið hafður á gagnvart lóðarhöfum á Höfðanum, sem gert er að hafa sig á brott og fá ekki einu sinni vilyrði um lóðir annars staðar.
Reykjavíkurborg andmælti fyrrgreindri gagnrýni og sagði endanlegan íbúðafjölda mjög ofmetinn, efast var um að ágóði olíufélaganna yrði mikilll, en einnig bent á að borgin gæti ella borið töluverðan kostnað af breyttri nýtingu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
