Stjórnvöld þurfa að undirbúa sig vel fyrir mögulegt hrun Golfstraumsins og rannsaka hættuna sem af því getur skapast fyrir samfélagið.
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, á ráðstefnunni Hringborð norðurslóða sem hófst í morgun.
Katrín, sem leiðir samráðsvettvang um stöðu póla á ráðstefnunni, var ein þeirra sem fluttu erindi á viðburði þar sem fjallað var um samstarf Íslands og Síle varðandi bráðnun jökla sem hófst árið 2022.
Katrín nefndi hraða þróun að undanförnu þegar kemur að rannsóknum á Golfstraumnum. Fyrir ári hefðu litlar líkur verið taldar á hruni hans en núna sýndu rannsóknir að líkurnar voru orðnar mun meiri. Ef slíkt gerðist gæti það haft alvarleg áhrif á íslenskt samfélag.
„Ef þetta gerist verður það vonandi ekki á næstu áratugum. Í gær heyrði ég minnst á árið 2100. En þetta er eitthvað sem stjórnvöld þurfa að skoða mjög náið og rannsaka áhættuna sem af þessu getur skapast,“ sagði Katrín.
Katrín var spurð hvað sér fyndist um að vísindamenn hefðu mismunandi skoðanir á þróun Golfstraumsins.
„Ég veit að vísindamenn eru ekki sammála en ég veit líka að virtir vísindamenn hafa flaggað þessari hættu. Við þurfum að átta okkur á því að þetta er möguleiki og við þurfum að vera viðbúin.“
Guðjón E. Hreinberg:
Trúðu trúðum, á voðann vísan
Ingólfur Sigurðsson:
Í umhverfismálum er aldrei hægt að ganga of langt, öfgar …

