Spennusagnahöfundurinn Arnaldur Indriðason stendur á tímamótum. Bók hans sem kemur út 1. nóvember verður sú síðasta um lögreglumanninn fyrrverandi Konráð. Arnaldur segir að bækurnar sjö um Konráð hafi verið eitt samhangandi verk og því sé nú lokið. Ný sögupersóna verður kynnt til leiks að ári.
Nýja bókin kallast Tál og henni er lýst sem hraðri og snarpri borgarsögu um lygar og spillingu.
Mér skilst að þetta sé síðasta bókin um lögreglumanninn fyrrverandi Konráð. Hvað geturðu sagt mér um bókina?
„Já, þetta er síðasta bókin að minnsta kosti í bili um Konráð og vonandi taka við ný ævintýri. Hún segir frá morði í austurbæ Reykjavíkur og héraðsdómara sem er handtekinn vegna þess og svo vill til að eiginkona hans er vitni í málinu,“ segir Arnaldur.
Nafnið vísar væntanlega í einhver svik, eða hvað?
„Sannarlega, svik af ýmsu tagi. Eiginkonan þekkir til Konráðs og biður hann að hjálpa sér með samskiptin við lögregluna en brátt kemur í ljós að hún er einstaklega óáreiðanlegt vitni og síðan flækjast inn í söguna fylgdarkonur og útigangsfólk og gamlir útrásarvíkingar ásamt öðrum. Sagan gerist að mestu leyti á einum sólarhring þar sem Konráð þvælist um á jeppanum sínum, lengst af með ungum farþega, sem gæti verið morðinginn.“
Þegar Arnaldur er spurður af hverju hann hafi talið tímabært að kveðja Konráð segir hann að nú séu komnar sjö bækur með honum, og stóru sögunni af fjölskyldu hans og þeim málum sem voru einkennandi fyrir bækurnar sé lokið.
„Þær sögðu öðrum þræði af stækkun og útþenslu Reykjavíkur á árunum eftir stríð, fjölluðu oft um illa meðferð á börnum og röktu sögu Konráðs í því samhengi frá unga aldri og fram til elliáranna. Þetta er eitt samhangandi verk og nú er því lokið.“
Hann kveðst horfa spenntur fram á við og er síður en svo hættur. Ný persóna lítur væntanlega dagsins ljós að ári liðnu.
„Ég er byrjaður að skrifa um nýja sögupersónu í bók sem vonandi kemur út um þarnæstu jól. Það sem ég get sagt um persónuna er að hún er ung lögreglukona og að sagan gerist í þorpi úti á landi að vetrarlagi og þangað er kominn hópur frá Hollywood að kvikmynda sjónvarpsseríu.“
Fyrst minnst er á sjónvarpsseríur er rétt að geta þess að í síðasta mánuði var skrifað undir samning við framleiðslufyrirtækið Glassriver um að framleiða sjónvarpsþáttaröð upp úr bókunum um Konráð. Hvernig líst þér á það verkefni?
„Mjög vel. Þau höfðu samband við mig þegar þau voru búin að kynna sér sögusvið Konráðsbókanna ofan í kjölinn og mér leist vel á hugmyndir þeirra og er viss um að eitthvað gott á eftir að koma út úr því.“
Tál er væntanleg
29 bækur
Tál er 29. bók Arnaldar á jafnmörgum árum. Allar hafa þær verið spennusögur utan tveggja. Í fyrra kom Ferðalok út en hún var skáldsaga byggð á ævi þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar. Árið 2021 kom Sigurverkið út en hún gerðist á sunnanverðum Vestfjörðum og í Kaupmannahöfn á 18. öld.
Bækur Arnaldar hafa selst í ríflega 20 milljónum eintaka á heimsvísu og verið gefnar út á 45 tungumálum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
