Ljósið leiðréttir framsetningu ráðherra

Í tilkynningu frá Ljósinu segir að aðeins sé um að …
Í tilkynningu frá Ljósinu segir að aðeins sé um að ræða samning um það fjármagn sem nú þegar hafi verið ákveðið á fjárlögum. Samsett mynd/Eggert

Ekki hafa náðst langtímasamningar á milli Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Ljóssins, endurhæfingarmiðstöðvar fyrir krabbameinsgreinda. Aðeins er um að ræða skammtímasamning út þetta ár. Vill Ljósið leiðrétta framsetningu heilbrigðisráðherra á málinu í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun, þar sem hún upplýsti að samningar hefðu náðst.

Hið rétta er að undirritaður var skammtímasamningur út árið 2025 fyrir það fjármagn sem nú þegar hafði verði ákveðið á fjárlögum þessa árs.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ljósinu.

Um er að ræða viðbótarframlag upp á 195 milljónir króna sem fjárlaganefnd ákvað í fyrra og kom beint frá heilbrigðisráðuneytinu, ekki sem hluti af varanlegum samningi við SÍ.

„Ljósið hefur frá ársbyrjun 2024 starfað á grundvelli tímabundinna samninga og nýjasti samningurinn tekur eingöngu til þessa árs. SÍ hélt eftir greiðslum fyrir ágúst og september þar til undirritun fór fram nú í október. Eftir stendur að engin langtímalausn hefur enn náðst um fjármögnun starfseminnar eftir árið 2025,“ segir í tilkynningunni.

Árétta mikilvægi þess að fá langtímasamning

Alma Möller heilbrigðisráðherra brást í morgun við ummælum Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns Sjálfstæðisflokksins, um að verið væri að skerða fjárframlög til Ljóssins um 200 milljónir króna. Sagði Alma það ekki rétt, enda hefði verið um að ræða einskiptis fjárveitingu frá velferðarnefnd. Þá upplýsti hún að samningar hefðu náðst á milli Ljóssins og SÍ. Ráðherra bætti því einnig við að ekki væri loku fyrir það skotið að veitt yrði viðbótarfjármagn til Ljóssins í meðferð þingsins á fjárlögum.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2026 er áfram gert ráð fyrir 283 milljóna króna framlagi til Ljóssins, sem er, að því er segir í tilkynningunni, veruleg lækkun frá því sem þarf til að tryggja stöðugt rekstrarumhverfi fyrir þjónustuna.

„Ljósið hefur áréttað mikilvægi þess að fá langtímasamning við Sjúkratryggingar Íslands þannig að þjónustan við krabbameinsgreinda einstaklinga geti haldið áfram án óvissu og truflana. Við erum þó þakklát fyrir orð heilbrigðisráðherra að Ljósið gæti fengið viðbótarfjármagn og vonum innilega að það verði að veruleika.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert