Miðstjórn ASÍ uggandi vegna Húsavíkur

Miðstjórn ASÍ lýsir áhyggjum sínum vegna lokunar kísilmálmverksmiðjunnar sem beinlínis …
Miðstjórn ASÍ lýsir áhyggjum sínum vegna lokunar kísilmálmverksmiðjunnar sem beinlínis hafi skapað 200 störf en auk þess fjölda afleiddra starfa. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Alþýðusamband Íslands er með böggum hildar yfir lokun kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka í Húsavík og ályktaði miðstjórn sambandsins á fundi sínum í gær að hún lýsti yfir þungum áhyggjum af atvinnuástandi á Húsavík og í nágrenni hennar vegna lokunarinnar.

„Miðstjórn hvetur stjórnvöld til að bregðast við hið fyrst þannig að unnt verði að hefja rekstur fyrirtækisins á ný. Í því efni skiptir mestu að rekstrarumhverfi PCC verði bætt með beinskeyttum aðgerðum,“ segir í ályktuninni.

Samkeppnisstaða við Kína þung

Kemur enn fremur fram í henni að miðstjórnin leggi áherslu á að stöðvun rekstrar PCC megi einkum rekja til erfiðleika á mörkuðum og röskunar þeirra vegna tollastríðs. Samkeppnisstaða gagnvart Kína sé þá að auki erfið þar sem verkafólk „sem engra réttinda nýtur og býr við ömurleg launakjör og aðbúnað framleiðir ódýran kísilmálm í miklu magni“.

Bendir miðstjórnin á að hátt í 200 störf tengist starfsemi verksmiðjunnar beint að störfum undirverktaka meðtöldum og afleidd störf skipti hundruðum.

„Lokun verksmiðjunnar, sem er ein hin fullkomnasta í heiminum, er mikið áfall fyrir atvinnulíf á Norðurlandi og alvarlegra áhrifa er þegar tekið gæta.

Miðstjórn ASÍ ítrekar því ákall sitt til stjórnvalda um að brugðist verði við hið fyrsta þar sem gífurlegir hagsmunir eru í húfi, jafnt fyrir atvinnulíf á Norðurlandi sem þjóðarbúið sjálft,“ segir að lokum í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert