Á sjötta tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og launafólks boðar til Kvennaverkfalls þann 24. október næstkomandi, 50 árum eftir Kvennaverkfallið 1975 sem markaði tímamót í jafnréttisbaráttu á Íslandi.
Á blaðamannafundi í dag var fyrirkomulag Kvennaverkfallsins kynnt og stjórnvöldum afhent innheimtubréf þar sem krafist er aðgerða til að bæta stöðu kvenna, draga úr launamun kynjanna og uppræta ofbeldi og mismunun á vinnumarkaði.
„Við afhentum stjórnvöldum kröfur Kvennaársins fyrir rúmu ári og þeim var gefið heilt ár til að bregðast við,“ segir Inga Auðbjörg Straumland, viðburðastýra Kvennaverkfalls 2025, í samtali við mbl.is. „Það hefur hvorki heyrst hóst né stuna frá þeim síðan. Nú er komið að skuldadögum.“
Verkfallið verður að sögn Ingu heilsdags viðburður þar sem þjóðin sameinast undir kröfu um raunverulegt jafnrétti.
„Við blásum til stórviðburðar í miðborg Reykjavíkur. Þar verður útifundur á Arnarhóli þar sem við komum saman og krefjumst þess að kröfur Kvennaársins verði afgreiddar til fulls,“ segir hún.
Áður en fundurinn hefst verður söguganga frá Sóleyjargötu að Arnarhóli, þar sem saga kvennabaráttunnar verður rifjuð upp.
„Í göngunni hyllum við konurnar sem komu á undan okkur, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, Þórunni, Katrínu og Guðrúnu sem voru meðal fyrstu kvenna í borgarstjórn. Þarna verður spunahópur sem sýnir verk um þriðju vaktina og ýmislegt skemmtilegt fleira. Þetta verður eins konar kvenréttindakarnival,“ segir Inga.
Að baki deginum standa rúmlega 60 félagasamtök, meðal annars samtök launafólks, hinsegin fólks, fatlaðs fólks og kvenna.
„Þetta er gríðarleg samstaða og það endurspeglar alvöru málsins. Við krefjum stjórnvöld um aðgerðir, ekki afsakanir,“ segir Inga.
Skipuleggjendur gera ráð fyrir mikilli þátttöku bæði í höfuðborginni og víðs vegar um landið.
„Við vonumst til þess að miðborgin fyllist af fólki en víða verða einnig viðburðir og samkomur. Allar upplýsingar eru á kvennaár.is þar sem má finna viðburðadagatal með hátíðum um land allt,“ segir hún.
Kvennaárið 2025 er helgað jafnréttisbaráttunni í heild sinni og viðburðir hafa þegar farið fram yfir árið.
„Þetta snýst ekki bara um einn dag. Þetta er grasrótarstarf og samtökin sem standa að baki hafa skipulagt fjölmarga viðburði í aðdraganda dagsins og út árið,“ útskýrir Inga.
Að hennar mati er ljóst að ástæða er til að halda áfram baráttunni.
„Það er enn gríðarlegur launamunur kynjanna, misrétti í verkaskiptingu á heimilum og kynbundið ofbeldi eykst ef eitthvað er. Það sýnir að við eigum enn langt í land,“ segir hún að lokum.