Ósannað að mengun hafi valdið dauða og lömun hrossa

Ekki þótti sannað að mengaður jarðvegur hefði valdið dauða og …
Ekki þótti sannað að mengaður jarðvegur hefði valdið dauða og veikinda hrossanna. Hrossin á myndinni tengjast fréttinni ekki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli tveggja manna sem kröfðust skaðabóta vegna dauða og veikinda hrossa á Stokksnesi í Hornafirði. Stefndu í málinu voru íslenska ríkið, Landhelgisgæsla Íslands og verkfræðistofan Verkís hf., sem nú hafa verið endanlega sýknuð af bótakröfum.

Mennirnir sem héldu því fram að eitt hross þeirra hefði drepist og fjögur veikst og lamast tímabundið eftir að hafa komist í úrgangshey og olíumengaðan jarðveg á svæði við ratsjárstöðina á Stokksnesi. Þeir töldu mengunina rekja til starfsemi hinna stefndu.

Mælingar óáreiðanlegar

Í Héraðsdómi var niðurstaðan sú að ekki hefði tekist að sanna tengsl milli mengunar á svæðinu og veikinda eða dauða hrossanna. Þeir Ómarar áfrýjuðu málinu til Landsréttar og lögðu fram nýja matsgerð dýralæknis og jarðefnafræðings.

Samkvæmt niðurstöðum matsmanna bentu mælingar til þess að há álgildi í eldri rannsóknum Matvælastofnunar mætti rekja til þess að við sýnatöku hefðu verið notuð glös sem ekki hentuðu til álmælinga. Því væru fyrri niðurstöður um mögulega áleitrun hrossanna óáreiðanlegar.

Ekki óeðlileg mengun 

Jarðvegsgreiningar sýndu jafnframt að álstyrkur á svæðinu væri svipaður og almennt gerist á Íslandi og ekkert benti til óeðlilegrar mengunar.

Landsréttur féllst á þessi sjónarmið og taldi að sönnun hefði ekki tekist fyrir því að mengun á svæðinu hefði valdið veikindum eða dauða hrossanna. Héraðsdómur var því staðfestur og hver aðili dæmdur til að bera sinn kostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert