Í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag spurði Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins, Eyjólf Ármannsson innviðaráðherra út í stöðu endurbóta á flugstöð Reykjavíkurflugvallar og hvort framkvæmdir muni hefjast á þessu kjörtímabili.
Þórarinn benti á að flugstöðin væri löngu orðin barn síns tíma og að aðstaðan þar væri ekki boðleg miðað við þann fjölda farþega sem fer um hana árlega, eða um 400 þúsund manns. Hann lagði áherslu á mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir tengingu landsbyggðarinnar við höfuðborgina, ekki síst vegna áætlunarflugs, sjúkraflugs og hlutverks vallarins sem varaflugvallar.
„Flugstöðin í Reykjavík er lykillinn að tengingunni við landsbyggðina. Við höfum nú þegar glæsilegar flugstöðvar á Akureyri og Egilsstöðum og því er eðlilegt að spurt sé hvenær Reykjavík fái sambærilega uppbyggingu,“ sagði Þórarinn og spurði hvort von væri til að framkvæmdir hæfust á þessu kjörtímabili.
Ráðherra tók undir að flugstöðin væri orðin úrelt. „Flugstöðin er frá árinu 1946 og er svo sannarlega komin til ára sinna. Við erum að skoða ýmsar sviðsmyndir varðandi framtíð hennar. Ef hún yrði reist fyrir beint ríkisframlag myndi það taka talsvert rými innan fjárlagaramma flugvallakerfisins,“ sagði ráðherrann.
Hann bætti við að verið væri að kanna aðkomu einkaaðila að verkefninu og möguleika á blandaðri fjármögnun.
„Ég hef átt góðan fund með fulltrúum Icelandair um málið. Það er mikilvægt að tryggja mannsæmandi aðstöðu fyrir farþega á Reykjavíkurflugvelli meðan hann er í Vatnsmýrinni. Flugvöllurinn er mikilvægur fyrir innanlandsflug, sjúkraflug og ferðamennsku og við sjáum tækifæri til að efla notkun erlendra ferðamanna á innanlandsflugkerfinu,“ sagði Eyjólfur.
Þórarinn þakkaði ráðherranum fyrir svörin en sagði mikilvægt að fá skýrari tímaramma um framkvæmdir.
„Við erum sammála um mikilvægi þess að flugstöðin í Reykjavík verði endurbætt og að þingheimur sameinist um að drífa þetta verkefni áfram. Þetta er sú fyrsta kynning sem erlendir gestir fá af landinu þegar þeir ferðast út á land og hún er því miður ekki sú sem við viljum sýna,“ sagði þingmaðurinn.
Eyjólfur tók undir að málið væri brýnt og að flugstöðin væri orðin áttræð á næsta ári.
„Í hvert einasta skipti sem ég fer í gegn er ég hissa á því að það sé ekki löngu, löngu komin ný flugstöð. Við þurfum að skoða fýsileika fjármögnunar og hvort einkaaðilar geti komið að verkefninu, þó að tekjumöguleikar þar séu takmarkaðri en í Keflavík. Ég vona að við getum sett fram skýrari sýn í næstu samgönguáætlun,“ sagði ráðherrann að lokum.