Samkeppniseftirlitið ósátt við orð bankamanna

Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins …
Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins og Kári S. Friðriksson hagfræðingur hjá Arion banka. Samsett mynd

Samkeppniseftirlitið vill árétta kröfu til keppinauta á viðskiptabankamarkaði að þeir taki sjálfstæðar ákvarðanir um vaxtakjör sín.

„Starfsmenn og stjórnendur viðskiptabanka ættu undir engum kringumstæðum að miðla upplýsingum til keppinauta um fyrirhugaðar eða líklegar breytingar á vaxtakjörum — hvorki opinberlega, á vettvangi hagsmunasamtaka, milliliðalaust né með öðrum hætti,“ segir í tilkynningu á vef eftirlitsins.

Líkur á hærri vöxtum 

Þrátt fyrir að nefna það ekki með beinum hætti vísar Samkeppniseftirlitið m.a. í orð Kára S. Friðrikssonar, hagfræðings hjá Arion banka, sem sagði í samtali við mbl.is að líklega myndu lán hækka í verði í kjölfar dóms Hæstaréttar. Er það vegna þess að í niðurstöðu dómsins felst að viðskiptabankar og aðrir lánveitendur á markaði verði að binda sig við vexti Seðlabankans.

Að sögn Kára þýðir það aukna áhættu fyrir bankana, sem geta ekki brugðist við markaðsaðstæðum á borð við sveiflur í verði á lánsfé annars staðar frá. Fyrir vikið væru líkur á því að bankarnir myndu hækka vexti til að verjast þeirri áhættu sem felst í því að veita lán til langs tíma án þess að geta brugðist við tilfallandi aðstæðum á markaði.

„Ég geri fastlega ráð fyrir því að ef lánaverð hér eftir miðast við stýrivexti plús einhvers konar fast álag bankanna, þá felst í því aukin áhætta fyrir bankana. Því mun annaðhvort þurfa að hækka vexti eða bjóða eingöngu upp á stutta fjármögnun í einu,“ segir Kári.

„Þetta mun því væntanlega vera aukinn kostnaður fyrir neytendur,“ bætir hann við.

Jón Guðni tók í svipaðan streng

Þá tók Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, í svipaðan streng þegar hann var inntur eftir viðbrögðum eftir dóminn.

„Þetta þýðir að við erum að veita 30–40 ára lán en þurfum að festa margínuna (vaxtamuninn), og það getur verið snúið þar sem margt getur breyst í rekstrarumhverfinu á svo löngum tíma,“ segir Jón Guðni.

Dregið úr hvötum til að keppa 

Í frétt á vef Samkeppniseftirlitsins er tekið fram að bann er við hvers konar samráði milli fyrirtækja. Tal um vaxtahækkanir í fjölmiðlum getur falið í sér ólöglegt samráð.

„Til þess að samkeppni þrífist þurfa fyrirtæki að búa við ákveðna óvissu um það hvernig keppinautarnir hyggjast bregðast við utanaðkomandi aðstæðum hverju sinni, s.s. verðhækkunum frá birgjum, ákvörðunum stjórnvalda eða dómsúrlausnum. Í samkeppnisumhverfi leita fyrirtæki mismunandi leiða til að bjóða vöru eða þjónustu á sem hagstæðustu verði, t.d. með því að hagræða í rekstri. Búi fyrirtæki hins vegar yfir vitneskju um viðbrögð keppinauta dregur það úr hvötum þeirra til að keppa og halda verði niðri,“ segir í fréttinni.

Ströng viðurlög 

Að lokum segir Samkeppniseftirlitið að það „taki vísbendingar um samkeppnishamlandi háttsemi sem þessari til alvarlegrar athugunar“. Brot á samkeppnislögum geta varðað ströngum viðurlögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert