Sérkennilegt samtal fyrir herlausa þjóð

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eyþór

Dómsmálaráðherra segir aldrei hafa verið jafn mikilvægt að styrkja almannavarnir og nú. Skýrt sé hjá nágrannaríkjum og í skýrslum og greiningum Atlantshafsbandalagsins að fyrsta lína varnar hverrar þjóðar séu borgaralegar varnir.

Frumvarp hennar til nýrra heildarlaga um almannavarnir sé mikilvægur liður í að styrkja áfallaþol samfélagsins í heild sinni. Fyrirhugað sé að það fari fyrir Alþingi í lok mánaðarins.

Í stóru myndinni miði það að því að efla almannavarnakerfið en einnig að tryggja að stoðir kerfisins vinni hver með annarri, hlutverk séu skýr og kerfið sé tilbúið ef til áfalls kemur.

Í íslensku samhengi hafi áföllin fyrst og fremst verið á vegum náttúruafla en kerfið sé einnig til taks vð aðrar aðstæður.

Þetta er meðal þess sem Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra sagði á árlegri ráðstefnu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í dag. 

Viðkvæmt samtal um að nálgast útlendingamál sem öryggismál

Ráðherrann sagði meðvitund um fjölþátta ógnir og hvernig stríð nútímans virka vera fyrir öllu. Það séu ógnir í formi netárása, skemmdarverk, njósnir, undirróður, hryðjuverk og skipulagða brotastarfsemi.

Flestir horfi á skipulagðan brotahóp og ríki sem óskylda hluti en mörkin þar á milli verði fljótt óljós þegar ákveðnir hópar vini í skjóli og jafn vel fyrir ákveðin ríki.

Nú hafi hún farið til Helsinki í Finnlandi tvisvar á stuttum tíma að hitta norræna ráðherra. Fyrri fundurinn hafi verið með ráðherrum útlendingamála og þar hafi hún heyrt nýtt stef um að nálgast útlendingamál sem öryggismál.

Samtalið sé viðkvæmt en rétt sé að ræða öryggismál í samhengi við fjölþátta ógnir, að hafa yfirsýn yfir hvernig skipulögð glæpasamtök nýta sér glufur til að reyna á mörk annarra þjóða.

Óvinveitt ríki ráðist á grunnstoðir norræna samfélaga

Fjölþátta ógnir hafi einnig verið ræddar á seinni fundinum, sem hafi snúist um jafnréttismál.

„Það er í fyrsta skipti frá því að ég tók við að það er verið að ræða fjölþátta ógnir á fundi um jafnréttismál,“ sagði ráðherrann.

Ógnirnar séu áhrif að utan, áhrif af samfélagsmiðlum, mikill þungi, vel fjármögnuð öfl sem tala gegn grunngildum t.d. norræna ríkja um jafnrétti og hlutverk og stöðu kynjanna.

Ástæða sé til þess að íhuga hvort það sé markmið einhverra að grafa undan jafnrétti í norrænum samfélögum. Með því er verið að ráðast á grunngildin, ala á sundrungu og búa til ótta.

Óvinveitt ríki gætu viljað veikja stoðir samfélagsins með þessum hætti.

Dómsmálaráðherra ávarpaði ráðstefnu almannavarna í dag.
Dómsmálaráðherra ávarpaði ráðstefnu almannavarna í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Þjóðin verði að halda áfram að styrkja almannavarnir

Ráðherrann sagði þjóðina verða að halda áfram að styrkja og þróa almannavarnir, ekki síst vegna breyttra aðstæðna í heiminum í dag.

Síðustu vikur hafi henni þótt fólkið í landinu feimið við umræðu um öryggis- og varnarmál, sem sé í sjálfu sér heilbrigðismerki.

„Það segir okkur og undirstrikar að við erum á nýjum stað og að við þurfum aðeins að máta okkur inn í það hvernig við ætlum að nálgast verkefnið,“

Þegar fólk sé alið upp við ákveðnar hugmyndir um stríð og hersveitir sé flókið að hugsa um hvert hlutverk Íslands eigi að vera, sem herlaust land.

1,5% af vergri landsframleiðslu fari í að styðja við varnir landsins

„Ísland er og verður herlaust land en við erum engu að síður öll ríkisstjórnin samhent og staðráðin í því að bæta öryggi Íslands og varnir Íslands. Þetta finnst mér í reynd vera mjög samofin hugtök,“ sagði ráðherrann.

Ísland hefur skuldbundið sig til að verja 1,5% af vergri landsframleiðslu til að styðja við öryggi og varnir landsins.

Þetta segir Þorbjörg nýtt samtal og að einhverju leyti sérkennilegt fyrir þjóð sem ekki er með sjálfstæðan her.

„En þá sjáum við líka, í samtölum við ráðamenn hinna Norðurlandaríkjanna, að það er ekki síst verið að horfa á þessar varnir sem almenningur þekkir,“ sagði hún.

Vegna herleysis Íslands blasi við að mikill þungi verði settur í að styrkja borgaralegan viðbúnað, innlendan viðbúnað, þ.e. lögreglu í landinu öllu, ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæsluna og almannavarnakerfið í heild.

Netöryggissveit CERT-IS sé t.d. flutt í utanríkisráðuneytið og verið sé að horfa á að styrkja kerfið áfram í heild sinni.

Einstakt kerfi sem nágrannaþjóðir dást að

Ráðherra sagði almannavarnir einstakt kerfi þar sem allir vinna saman á jafningjagrundvelli.

„En skipulagið er skýrt og að sjálfsögðu er verkstjóri. En það er þetta öfluga kerfi, samheldni og samhæfing sem nágrannaþjóðir okkar dást að,“ sagði ráðherra og bætti við að almannavarnir njóti trausts almennings sem mikilvægt er að viðhalda.

„Almannavarnir og allir þeir viðbragðsaðilar sem koma að almannavarnakerfinu tryggja öryggi okkar. Þjóðin veit það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka