Sveitarstjórnir 19 sveitarfélaga með færri íbúa en 1.000 skora á Eyjólf Ármannsson innviðaráðherra að draga til baka tillögu sína um að gera sveitarfélögum með færri íbúa en 250 skylt að sameinast ákveði ráðherrann svo. Áskorun þessa efnis var send ráðherranum sl. mánudag.
Í drögum að frumvarpi til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum sem nú liggur í samráðsgátt segir m.a. að ráðherra skuli eiga frumkvæði að sameiningu sveitarfélaga með færri íbúum en 250, nema sérstakar aðstæður mæli því í mót. Eigi sameiningu að vera lokið við sveitarstjórnarkosningar 2026.
Áskorunin var samþykkt á sameiginlegum fundi sveitarfélaga með íbúa færri en 1.000 og er þar skorað á innviðaráðherra „að draga til baka tillögu innviðaráðuneytis um afnám íbúalýðræðis sem felst í drögum að nýjum sveitarstjórnarlögum sem nú liggja fyrir í samráðsgátt stjórnvalda“, segir í áskoruninni.
Segir þar einnig að sveitarfélögin fordæmi þá vegferð stjórnvalda að svipta íbúa fámennustu sveitarfélaga landsins réttinum til að taka ákvörðun um tilvist sveitarfélags síns með því að fyrirskipa sameiningar.
„Með þessu er helgasti réttur sveitarstjórnarstigsins, íbúalýðræðið, afnuminn og valtað yfir ákvörðunarvald sveitarfélaga, ekki aðeins hinna minnstu, heldur einnig þeirra sveitarfélaga sem þeim verður uppálagt að sameinast. Verði ráðherra veitt vald til þess að hlutast til um sameiningu sveitarfélaga með þessum hætti er gerður að engu sá réttur íbúa að kjósa sér fulltrúa til þess að fara með umboð og málefni viðkomandi sveitarfélags. Um er að ræða skref sem grefur undan lýðræði og hlutverki kjörinna fulltrúa,“ segja sveitarstjórnirnar.
„Frumvarpið sýnir mikla óvirðingu við íbúa minni sveitarfélaga og óþolinmæði gagnvart þróun sem er í gangi. En nokkur af fámennustu sveitarfélögunum hafa þegar sameinast eða samþykkt sameiningu, s.s. Akrahreppur, Skagahreppur, Svalbarðshreppur og Skorradalshreppur. Önnur eiga í viðræðum á misjöfnu stigi og getur frumvarpið haft afar neikvæð áhrif á anda þeirra viðræðna og mögulegra sameininga,“ segir þar.
Segir enn fremur að sveitarfélögin sem að áskoruninni standa mótmæli harðlega fyrirliggjandi áformum þar sem þau svipti sveitarfélög sjálfsákvörðunarrétti sínum og íbúa sínum lýðræðislegu réttindum.
Undir áskorunina rita fulltrúar 19 sveitarfélaga, þar af 17 oddvitar, en tveir sveitarstjórar.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
