„Slæm upplifun ofan á ofbeldið sjálft“

Hildur Fjóla réttarfélagsfræðingur.
Hildur Fjóla réttarfélagsfræðingur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hildur Fjóla Antonsdóttir réttarfélagsfræðingur segir að rannsaka þurfi sérstaklega hvaða áhrif breytingar á lögum um aðild brotaþola hafi haft á upplifun þeirra af sakamálum. Erfitt geti verið að meta breytingarnar vegna þess hve málsmeðferðartími hér á landi er langur.

Hún segir að aðeins lítill hluti þeirra sem leggja fram kæru í kynferðisafbrotamálum fari í gegnum allt réttarkerfið. Aðeins lítill hluti brotaþola hafi því fundið fyrir þessum breytingum. 

„Eins og við vitum í kynferðisafbrotamálum er lítill hluti þeirra sem fer nokkurn tímann fyrir dóm þannig það er lítill hluti brotaþola sem er að fá megnið af þessum réttindum, þó að sum þessara réttinda eigi við um alla brotaþola,“ segir Hildur í samtali við mbl.is. 

Heimilt að vera viðstödd lokað þinghald

Árið 2022 voru gerðar breytingar á lögum 61/2022 þar sem réttarstaða brotaþola við meðferð sakamála var breytt, á rannsóknarstigum og fyrir dómi. Með breytingunum var réttarstaða brotaþola færð nær réttarstöðu sakbornings án þess þó að brotaþoli væri gerður að beinum aðila máls. 

Eftir að breytingarnar tóku gildi er brotaþola m.a. heimilt að vera viðstaddur lokað þinghald eftir að hann hefur gefið skýrslu fyrir dómi, kjósi hann svo.

Hildur vann greinargerð fyrir stýrihóp forsætisráðherra árið 2019 og var hluti tillagna hennar nýttur í lagabreytinguna.

Hérðasdómur Reykjavíkur.
Hérðasdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Langur málsmeðferðartími varpi skugga

Hildur segir að þegar málsmeðferðartími sakamála er jafn langur og á Íslandi geti verið erfitt að meta hvaða áhrif breytingar kunni að hafa á upplifun fólks á réttarkerfinu. Langur málsmeðferðartími liti oft upplifun fólks af réttarkerfinu sem varpi skugga á þær breytingar sem hafi verið gerðar. 

„Þegar málsmeðferðartíminn er svona langur getur verið erfitt að meta breytingar. Það eru gerðar einhverjar breytingar og réttindi eru aukin en þessi málsmeðferðartími varpar svolítið skugga á heildarupplifunina,“ segir Hildur og bætir við:

„Svo tala ég ekki um eins og í nauðgunarmálunum þar sem langoftast eru þau felld niður og fara aldrei fyrir dóm. Fólk er búið að bíða og bíða og fá takmarkaðar upplýsingar, vegna þess að það er hreinlega ekki verið að vinna í málinu, svo er það niðurfellingin og fólk upplifir þá að það skipti engu máli. Það er svo slæm upplifun ofan á ofbeldið sjálft,“ segir Hildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert