Sýn hefur lækkað afkomuspá sína fyrir árið 2025 og segir að skortur á raunhæfum aðgerðum stjórnvalda til að jafna samkeppnisstöðu einkarekinna miðla sé meðal ástæðna. Félagið bendir á að opinberir og erlendir aðilar, eins og RÚV og alþjóðlegar efnisveitur, njóti forskots sem þrengi að rekstri einkarekinna fjölmiðla.
Samkvæmt nýrri spá gerir félagið ráð fyrir að rekstrarhagnaður (EBIT) verði um 280 milljónir króna á árinu, sem er talsvert minna en áður var áætlað. Í fyrri spá, sem birt var í ágúst, var gert ráð fyrir hagnaði á bilinu 800 til 1.000 milljónir króna.
EBITDAaL, sem mælir rekstrarhagnað fyrir fjármagnsliði og afskriftir, er nú áætlaður um 3.450 milljónir króna, samanborið við 4.000–4.200 milljónir í fyrri spá.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Helstu ástæður lækkunarinnar eru minni tekjur af sjónvarpsáskriftum, seinkun á sölu heildrænna þjónustupakka og áhrif ákvörðunar Fjarskiptastofu um flutningsrétt keppinauts á öllu línulegu sjónvarpsefni Sýnar: Það hafi haft íþyngjandi áhrif á rekstur og tekjumyndun félagsins. Þá eru auglýsingatekjur og tekjur af hlutaneti (IoT) undir væntingum.
Þá segir að í ljósi „markaðsaðstæðna og skorts á raunhæfum aðgerðum stjórnvalda til að jafna samkeppnisstöðu einkarekinna miðla, annars vegar gagnvart RÚV og hins vegar erlendum efnisveitum og samskiptamiðlum, er félagið að vinna að endurskoðun á tekjumódeli í tengslum við fjölmiðlarekstur félagsins.“
Í þessu samhengi var fjölmiðlafrumvarp samþykkt í dag sem felur í sér lækkað framlag til Sýnar og Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins og mbl.is.
Til að mæta þessari þróun hyggst félagið halda áfram að lækka rekstrarkostnað og ljúka framsali farnetsdreifikerfisins til Sendafélagsins, sem á að bæta sjóðstreymi.
Sýn hefur jafnframt ákveðið skipulagsbreytingar. Sölu- og þjónustusvið verður skipt upp og sameinað öðrum deildum. Guðmundur Halldór Björnsson verður framkvæmdastjóri nýs Sölu- og markaðssviðs, og Valdís Arnórsdóttir tekur við Þjónustu- og mannauðssviði. Gunnar Guðjónsson lætur af störfum sem framkvæmdastjóri Sölu- og þjónustusviðs og fækkar því um einn í framkvæmdastjórn.