Tæp 80 prósent þurftu innlögn

Rafn segir ástandið hafa skánað í dag.
Rafn segir ástandið hafa skánað í dag. Samsett mynd/Ómar/Landspítalinn

Seinustu tvær vikur á Landspítalanum hafa verið þungar vegna erfiðleika við að skrá fólk út af bráðamóttöku. Staðan hefur þó skánað örlítið í dag.

Þetta segir Rafn Benediktsson, framkvæmdastjóri bráða-, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítalans, í samtali við mbl.is.

Mánudagar og þriðjudagar þyngstir

„78 prósent af þeim sem lágu inni á bráðamóttöku í gærmorgun voru talin þurfa innlögn,“ segir Rafn en sú tala hefur mest náð 80 prósentum frá því í júlí.

Að meðaltali er talið að um 60 prósent fólks á bráðamóttökunni þurfi innlögn.

„Þegar þetta fer upp í 80 prósent ræður fólk mjög illa við það því þá eru svo margir á þessu litla svæði,“ segir hann.

Um klukkan 16 í dag lágu 73 inni á bráðamóttöku og af þeim var talið að 39 þyrftu að leggjast inn á spítala.

Rafn segir álagið á bráðamóttökunni vera mest á mánudögum og þriðjudögum, einkum seinni part dags.

Legudeildir yfirleitt fullar

Hann segir að legudeildir spítalans séu einnig yfirfullar.

„Meðaltalið síðustu þrjá mánuði hefur verið um 110 prósent nýting á legudeildunum,“ en flest viðmið gera ráð fyrir um 85 prósent nýtingu á þessum deildum.

Rafn segir að erfitt sé að segja til um hve langt sé í að ástandið batni.

Mikilvægt að fólk leiti hjálpar

Landspítalinn hefur hvatt fólk sem ekki er í bráðri hættu að hringja fyrst í 1700 eða leita upplýsinga á netspjalli Heilsuveru áður en leitað er á bráðamóttökuna.

Rafn bendir samt á mikilvægi þess að fólk sem er alvarlega veikt eða slasað leiti tafarlaust á bráðamóttöku.

„Ef maður er alvarlega veikur, með svæsin einkenni í brjósti eða kvið eða grunur er um að slagæð hafi saddast á ekki að hika við að leita á bráðamóttöku.“

Í lokin segir Rafn starfsfólk spítalans hafa staðið sig ótrúlega vel og segir þau eiga hrós skilið fyrir vinnusemi sína og þrautseigju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert