Þorgerður komst við í ræðustól

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra komst við í ræðustól Alþingis í dag er hún ræddi um mikilvægi Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess.

Var Þorgerður að svara fyrirspurn Jens Garðars Helgasonar í liðnum óundirbúnum fyrirspurnum en hann hafði í fyrirspurn sinni gagnrýnt að ekki væri svigrúm til að auka fjármagn til stofnana líkt og Ljóssins eða Fjölskylduhjálpar.

Sömuleiðis benti Jens Garðar á að Viðreisn hefði fyrir síðustu kosningar sagt að fjármunir yrðu settir í að tryggja gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu kæmist flokkurinn í ríkisstjórn en af því hefði enn ekki orðið og spurði þingmaðurinn hvenær ætti að gera það.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í pontu í dag.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í pontu í dag. Skjáskot af vef Alþingis

„Það eru akkúrat þrjú ár í dag síðan Kaja systir fór“

„Ég vil byrja á því að taka eindregið undir með háttvirtum þingmanni um mikilvægi Ljóssins og starfsemi þess. Það eru ótrúlega mikil verðmæti sem eru þar unnin í því starfsfólki og þeirri starfsemi. Við sem eigum aðstandendur - það eru akkúrat þrjú ár í dag síðan Kaja systir fór,“ sagði Þorgerður í svari sínu og tóku orðin greinilega á en systir hennar Karitas H. Gunnarsdóttir lést árið 2022, 62 ára að aldri. 

Sagðist hún sömuleiðis eiga vinkonur sem nýttu sér þjónustu Ljóssins og mátti þá sjá ráðherrann klökkna.

„Þannig að mér finnst mjög mikilvægt að heilbrigðisráðherra skyldi undirstrika það hér áðan að það verði passað upp á Ljósið, af því að við vitum alveg út á hvað sú starfsemi gengur,“ sagði Þorgerður og vísaði þar til orða Ölmu D. Möllers heilbrigðisráðherra sem greindi frá því fyrr í dag að samningar hefðu náðst á milli Sjúkratrygginga Íslands og Ljóssins fyrir þetta ár. 

Sálfræðiþjónustan kláruð á kjörtímabilinu

Þá sagði Þorgerður sömuleiðis að sálfræðiþjónusta væri Viðreisnarmönnum hjartans mál og að ljóst væri að mál um gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu færi á dagskrá og yrði klárað á kjörtímabilinu.

„Ég ætla ekkert að dylja það að auðvitað myndi ég vilja sjá í forgangsröðun að þessu yrði ýtt framar. En stóra verkefnið okkar í ríkisstjórninni og það stóra verkefni sem m.a. fjármálaráðherra og forsætisráðherra og við öll í ríkisstjórninni stöndum frammi fyrir er að ná tökum á rekstri ríkissjóðs. Það er mesta forgangsverkefnið núna. Það er fyrir heimilin, fyrir fyrirtækin, fyrir samkeppnishæfni atvinnulífsins. Það er upp á lífsgæði til skemmri en líka lengri tíma. Sálfræðiþjónustan verður afgreidd á þessu kjörtímabili. Það liggur alveg fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert