„Ég held að við munum ekki sjá íslenskan her á minni lífstíð,“ sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra við opnunarathöfn Hringborðs norðurslóða í Hörpu í dag, eftir að norsk blaðakona spurði hana út í umræðu um her á Íslandi.
Kristrún, sem kaus að halda ekki ræðu á athöfninni heldur svara frekar spurningum úr troðfullum salnum, sagðist telja Íslendinga vera almennt ánægða með að Ísland sé herlaust ríki. Hún benti þó á þörfina á auknum fjárveitingum til varnarmála vegna stöðunnar sem er uppi á alþjóðavísu og nefndi að Íslendingar hefðu líkast til verið heldur barnalegir í mörg ár í tengslum við varnarmál.
Kristrún sagði jafnframt mikilvægt að horfa inn á við og vera ábyrgari þegar kemur að varnar- og öryggismálum og eflingu innviða.
Ólafur Ragnar Grímsson, stofnandi Hringborðs norðurslóða og fyrrverandi forseti Íslands, spurði Kristrúnu út í samskipti Íslands og Bandaríkjanna. Hún sagði þau alltaf hafa verið góð og að þau myndu halda áfram að vera góð, þótt ekki væri hægt að vera sammála um alla hluti. Kristrún minntist einnig á mikilvægi þess að efla samskiptin við þjóðir á borð við Grænland, Færeyjar og Kanada, auk Bandaríkjanna.
Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, gat ekki verið viðstaddur ráðstefnuna en flutti þess í stað sjónvarpsávarp. Þar talaði hann um loftslagsvána og hættuna af völdum hennar. Hann tók í sama streng og Kristrún varðandi varnarmálin.
Hann sagði dönsk stjórnvöld alltaf hafa lagt áherslu á að halda spennunni niðri á norðurslóðum en þannig væri staðan því miður ekki núna. Ráðherrann sagði mikilvægt að auka hernaðarstyrk og varnir og minntist í framhaldinu á aukið framlag þeirra til varnarmála á svæðinu.