Fangelsismálastjóri segir vandmeðfarið að grípa til almennra aðgerða til að sporna gegn átökum á milli fanga líkt og gerðist í útivist á Litla-Hrauni í gær þegar tveir fangar áttu í vopnuðum átökum.
Slíkar aðgerðir feli yfirleitt í sér skerðingu á athafnafrelsi manna, sem sé ekki endilega ákjósanleg lausn. Það sé þó mikilvægt að fylgjast með og reyna að sporna gegn gengjamyndun og samblæstri manna innan veggja fangelsisins.
Einhvers konar vopn kom við sögu í átökunum í gær en ekki liggur fyrir af hvaða tagi það var. Hlaut annar fanganna skurð á hendi, en áverkarnir voru minniháttar.
Eins og fram kom í viðtali við Kristínu Evu Sveinsdóttur, forstöðumann Litla-Hrauns, á mbl.is í gær má rekja atvikið til þess að fangelsin eru yfirfull og ekki hægt að aðskilja menn með viðeigandi hætti.
Þá kom fram í máli Kristínar að mennirnir hefðu verið settir í svokallaðan aðskilnað eftir átökin, sem er í raun einangrun, en slíkur aðskilnaður má vara í sólarhring. Í kjölfarið verður tekin ákvörðun um hvort agaviðurlögum verður beitt en þá má vista menn í einangrun í nokkra daga.
Birgir Jónasson fangelsismálastjóri segir að mögulega þurfi að skoða tilhögun útivistar og fleira til að reyna að koma í veg fyrir atvik af þessu tagi. Þá verði atvikið rýnt sérstaklega og hann gerir ráð fyrir að það hafi í för með sér frekari aðskilnað.
„Það er eitt og annað sem við getum gert en allt sem við gerum er þess fallið að skerða athafnafrelsi manna inni fangelsum. Allt sem við grípum til kemur niður á meðferðinni og endurhæfingunni. Það getur orðið þannig en við viljum reyna að koma í veg fyrir það í lengstu lög. En að sjálfsögðu verðum við fyrst og fremst að tryggja öryggi bæði fanga og starfsfólks,“ segir Birgir.
„Við þurfum bara að fara yfir og meta það hverjar mögulegar mótvægisaðgerðir gætu verið. Að þær hafi ekki áhrif á of marga,“ bætir hann við og bendir á að margir séu að afplána langa dóma og því mikilvægt að gera mönnum lífið eins bærilegt og hægt er.
Hann tekur undir með Kristínu að svona atvik megi fyrst og fremst rekja til aðbúnaðarins. Ekki séu starfrækt á Íslandi fullkomin öryggisfangelsi sem geri kleift að skilja menn að. Það sé þekkt áhætta í rekstri fangelsis.
„Það er hátt hlutfall einstaklinga sem sitja inn núna sem eru dæmdir fyrir eða sæta gæsluvarðhaldi vegna ofbeldisbrota og það fylgir því alltaf ákveðin áhætta hvað varðar ofbeldishegðun. Svo eru þetta stundum tengingar. Eitthvað sem við verðum að vera á varðbergi gagnvart, það er bæði aðskilnaður og atriði eins og samblástur manna innan fangelsa eða gengjamyndun. Þá er mikilvægt að geta aðskilið menn en því miður er það þannig að það er dálítið erfitt um vik eins og fangelsiskerfið er núna.“
Birgir segir bæði um að ræða gengjamyndun innan veggja fangelsisins og hópa sem hafa myndast utan þess og jafnvel eldað saman grátt silfur. Það hvort tveggja sé þekkt í rekstri fangelsa og Ísland sé þar ekki undanskilið.
„Þetta er eitthvað sem þarf alltaf að fylgjast með, samblástur manna, bæði út af fyrri atvikum og innan fangelsanna. Þetta er sérstaklega viðkvæmt gagnvart ungu fólki, enda reynum við hér á Íslandi að vista ekki mjög ungt fólk í fangelsum. Það er meðal annars út af þessu.“
Birgir tekur þó fram að hann geti ekki sagt til um hvort það hafi verið raunin í þessu tilfelli en rýna þurfi það sérstaklega.
„Það er einhver forsaga þarna á bakvið. Það virðast vera einhverjar óuppgerðar skuldir og við þurfum að rýna það. Auðvitað mun lögreglan rannsaka það síðan en það þarf að fara fram ákveðin innanhúsrannsókn á þessu líka hjá okkur,“ segir hann og heldur áfram:
„Við þurfum að reyna að draga úr þessu eins og við getum og koma í veg fyrir, en það er krefjandi. Það krefst aukinnar mönnunar og sérhæfingar starfsfólks, en stundum dugir það ekki til. Stundum þarf að kalla til aðstoð frá lögreglu.“
Spurður út í vopnið sem notað var átökunum í gær, hvort um hafi verið að ræða vopn sem smyglað var inn í fangelsið, eitthvað sem var útbúið á staðnum eða annað áhald notað sem vopn, getur Birgir ekki sagt til um það.
„Þeir nota ýmislegt sem vopn. Þrátt fyrir að þetta sé fangelsi þá eiga fangar mjög rík réttindi um margt og geta haft hjá sér muni. Við reynum að gera þetta eins bærilegt og hægt er og þá eru ýmsir íhlutir sem hægt er að nota sem vopn, eðli málsins samkvæmt. En að sjálfsögðu reynum við að fylgjast með og leggjum hald á vopn ef við sjáum þau.“