Innviðaráðherra segir óvíst hvort Tjörneshreppur geti yfir höfuð afþakkað 250 milljóna króna fólksfækkunarframlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélega, eins og oddviti hreppsins hefur lýst yfir að gert hafi verið. Ráðherra hefur enn ekki fengið upplýsingar um það frá Jöfnunarsjóði.
„Þetta er þessi fækkunarpottur, þeir fá fækkunarframlagið. Þetta er bara 50 manna sveitahreppur sem sinnir engri þjónustu. Öll þjónusta til þessa íbúa er veitt í Norðurþingi. Hvað þeir myndu gera við þessa peninga veit ég ekki, en þetta er ansi mikill peningur á mann,“ segir Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra í samtali við mbl.is, en um er að ræða rúmar fimm milljónir á hvern íbúa.
„Það er því ákveðin skynsemi í því hjá sveitarfélaginu að bjóðast til að greiða þetta til baka og ég vonast til að það fái farsæla lausn,“ segir ráðherrann jafnframt.
Hann segir þessa ráðstöfun þó fyrst og fremst sýna hve úrelt núgildandi lög um Jöfnunarsjóð eru og hvað mikilvægt hafi verið að samþykkja ný lög um sjóðinn í sumar, sem taka gildi 1. janúar. „Þetta mun ekki gerast samkvæmt nýjum lögum,“ segir Eyjólfur.
Aðalsteinn J. Halldórsson, oddviti í Tjörneshreppi, sagði í samtali við mbl.is í vikunni að framlagið hefði verið afþakkað þar sem það hefði fylgt því sem hann kallar brattri ákvörðun innviðaráðherra um að setja inn ákvæði í sveitarstjórnarlög um lágmarksstærð sveitarfélaga, upp á 250 íbúa.
Slík ákvörðunin felur í sér að sveitarfélög með færri en 250 íbúa gætu þurft að sameinast öðrum. „Við höfðum ekki geð í okkur að taka við framlaginu,“ sagði Aðalsteinn.
Eyjólfur segir mikilvægt að nútímavæða sveitarfélagastigið um land allt. Þetta snúist allt um hagkvæmni stærðarinnar.
„Ríkisvaldið hefur verið að færa verkefni til sveitarfélaga og það er gríðarlega mikilvægt að þau hafi þá burði til að sinna þeim skyldum sem er búið að fela þeim. Það getur verið að þetta sé ríkt sveitarfélag en þetta snýst líka um hagkvæmni og nýtingu fjármuna. Það er augljóst mál að 50 manna sveitarfélag hefur ekkert með 250 milljónir að gera, sérstaklega ekki ef þjónustan er veitt annars staðar. Það væri hægt að nota þessa peninga í öðru sveitarfélagi miklu betur.“
Ráðherra bendir á að í frumvarpi til breytinga á sveitarstjórnarlögum sé ákvæði um undanþágu frá 250 manna lágmarsfjölda sveitarfélaga veiti sveitarfélagið ákveðna grunnþjónustu.