„Síðustu vikur hafa verið erfiðar. Það hefur verið mikið aðflæði og þar af leiðandi margir sem bíða á bráðadeild annaðhvort eftir öðrum deildum eða annarri aðstoð. Á miðvikudaginn höfðum við einfaldlega ekki pláss til að taka á móti fólki,“ segir Mikael Smári Mikaelsson, yfirlæknir bráðadeildar Landspítalans.
Spítalinn sendi frá sér tilkynningu á miðvikudag þar sem greint var frá því að mikið álag væri á bráðamóttöku og búast mætti við lengri bið en ella. Var fólk hvatt til að leita annað ef það ætti þess kost.
Mikael segir að spítalinn hafi verið settur á hærra viðbúnaðarstig vegna þessa og reynt hafi verið að útskrifa fólk af spítalanum eftir föngum. Fyrir vikið hafi ástandið skánað undir kvöld.
Spítalinn hefur glímt við mönnunarvanda um árabil. Mikael segir að bráðadeildin sé betur mönnuð nú en oft áður og því sé ekki hægt að kenna manneklu alfarið um álagið sem upp kom í vikunni. „Það er búið að ráða vel inn og við erum í mun betri stöðu en við vorum þótt alltaf megi bera betur. Vandamálið snýr meira að því að allar legudeildir Landspítala eru yfirfullar. Það er því ekki óeðlilegt að verið sé að keyra á vel yfir 100 prósent nýtingu á bráðadeild. Ef þú bíður eftir innlögn, þá bíðurðu hjá okkur.“
Stjórnvöld tilkynntu í byrjun maí að bráðamóttakan yrði stækkuð með 700 fermetra viðbótarhúsnæði sem ætti að vera tilbúið fyrir lok þessa árs. Í þessu húsnæði eiga að vera 20 legurými, vaktherbergi, aðstaða fyrir lín og lager auk fundaherbergis.
Um er að ræða einingahús sem smíðað er erlendis. Ekkert bólar á húsinu og nú lítur út fyrir að það verði ekki tilbúið fyrr en með vorinu.
Mikael segir að enn sé verið að skoða hvernig best sé að nýta þessa stækkun til að létta á teppunni hjá bráðamóttöku. Ekki sé litið á húsnæðið sem hreina viðbót við bráðamóttökuna heldur einhvers konar milliþjónustu sem bæði bráðamóttaka og aðrar deildir geta veitt. Með því eigi flæði og þjónusta á spítalanum að batna.
Greint var frá því á vef Landspítalans í byrjun mánaðarins að níu sérfræðingar hefðu síðasta árið lokið fullu sérnámi við Landspítala. Þar af voru fimm sem luku sérnámi í bráðalækningum og var sérstaklega tilgreint að það heyrði til tíðinda enda jafngilti þetta fimmtungs fjölgun bráðalækna á Íslandi.
Mikael segir að læknarnir fimm séu komnir til starfa en enn sé verið að finna út úr því hvar kraftar þeirra nýtast best. „Það er gaman að fá ungt og kraftmikið fólk í hópinn og við erum mjög þakklát.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
