Borgarráð Reykjavíkur birti í gærdag óvænt skýrslu Innri endurskoðunar og ráðgjafar Reykjavíkurborgar (IER) vegna samningaviðræðna við olíufélög um bensínstöðvalóðir, en hún felur í sér harða gagnrýni á stjórnsýslu og hagsmunagæslu borgaryfirvalda.
Upphaflega óskaði borgarráð eftir úttektinni í maí í fyrra, en niðurstöður áttu að liggja fyrir í febrúar síðastliðnum. Þá urðu hins vegar meirihlutaskipti þegar Heiða Björg Hilmisdóttir, nýr borgarstjóri Samfylkingarinnar, tók við völdum og skilunum var í tvígang frestað, enda reyndist verkið umfangsmeira en upphaflega var talið.
Eins og Morgunblaðið greindi frá í gær var skýrslan gefin út á mánudag og send endurskoðunarnefnd borgarinnar til kynningar, en fundargerð hennar var fyrsta vísbendingin um að skýrslunnar væri loks að vænta.
Frétt blaðsins olli raunar nokkru fjaðrafoki í ráðhúsinu, þar sem skýrslan var þá óútkomin, en í gærmorgun staðfesti Líf Magneudóttir formaður borgarráðs að heimildir blaðsins og fréttir væru réttar.
Eftir því sem blaðið kemst næst stóð upphaflega til að skýrslan yrði birt og rædd á borgarstjórnarfundi næsta þriðjudag, en á fundi borgarráðs var ákveðið að birta hana ásamt fundargerð ráðsins eftir fund þess í gær.
Skýrslan er vönduð og mikil vöxtum, 105 síður alls.
Meginniðurstaðan er sú að ekkert hafi komið fram sem bendi til beinna brota á lögum eða reglum, en að ákvæði samkeppnislaga og reglur um opinbera aðstoð hafi ekki verið nægjanlega greind eða tekin til formlegrar skoðunar. Það kann að draga dilk á eftir sér.
Hins vegar er þar fundið að fjölmörgu við vinnubrögðin, allt frá ónákvæmni, að markmiðin væru illa skilgreind og ekki endilega reist á formlegum forsendum, samningar oft óljósir og hagsmunir borgarinnar ekki tryggðir sem skyldi. Þá hafi borgarráð ekki fengið nægjanlega sérfræðiráðgjöf eða greiningu áður en það tók ákvarðanir um samningana.
Með samningunum var olíufélögum veittur byggingarréttur sem gæti numið mörgum milljörðum króna að markaðsvirði, án þess að borgin fengi endurgjald í samræmi við það.
Samningaviðræðurnar hófust skv. samþykkt borgarráðs árið 2019, að frumkvæði þáv. borgarstjóra Dags B. Eggertssonar, um að fækka bensínstöðvum í borginni um helming – og að gera það fyrir árið 2025 í stað 2030 eins og loftslagsstefna borgarinnar mælti fyrir um.
Fundið er að því að engin gögn sýni að sú ákvörðun hafi fengið faglegan undirbúning eða greiningu.
Sem fyrr segir telur IER að megintilgangur samninganna hafi verið málefnalegur og í samræmi við skipulagsstefnu, en framsetning markmiðanna hafi verið veik og óljós. Óvíst sé hvort stefnt var að því að fækka bensínstöðvum, fækka dælum eða minnka landrými um helming.
„Í framsetningu meginmarkmiðanna voru veikleikar,“ segir í skýrslunni og að áhrifin hafi ekki verið metin. Slíkt sleifarlag í undirbúningi hafi skapað lagalega áhættu og veikt stöðu borgarinnar gagnvart olíufélögunum.
IER bendir jafnframt á að markmiðið um 50% fækkun hafi ekki náðst og uppbyggingaráform séu „verulega á eftir áætlun“ þrátt fyrir að loftslagsstefnan hafi verið samþykkt fyrir níu árum og samningsmarkmiðin fyrir rúmum sex árum.
Samningamenn borgarinnar hafi hins vegar látið vera að tryggja að uppbygging færi fram í samræmi við væntingar og hagsmuni borgarinnar.
„Þvert á móti virðast lóðarhafar geta losnað frekar auðveldlega undan frekari uppbyggingaráformum, kjósi þeir það.“
Gagnrýnt er að samningarnir við olíufélögin hafi verið óskuldbindandi og óljósir. Í einu af fimm „rammasamkomulögum“ er beinlínis tekið fram að það feli ekki í sér bindandi samkomulag um einstakar lóðir, aðeins markmið en án afleiðinga ef frá þeim væri vikið.
„Ekki verður séð að það hafi […] neinar afleiðingar fyrir lóðarhafa ef ekki verður af ætluðum uppbyggingaráformum,“ segir í skýrslunni.
Einna alvarlegustu athugasemdirnar lúta þó að fjárhagslegri hlið málsins, en gagnrýnt hefur verið í opinberri umræðu að olíufélögin hafi þar fengið „milljarða á silfurfati“.
Borgarráð samþykkti 2019 að fella niður byggingarréttargjöld ef ákveðin skilyrði væru uppfyllt, svo sem að nýtt deiliskipulag yrði samþykkt innan þriggja ára. Þau skilyrði voru hins vegar víða ekki uppfyllt, en borgin felldi engu að síður niður gjöldin.
„Með sérstöku samkomulögunum er því áfram gert ráð fyrir niðurfellingu á greiðslu fyrir byggingarrétt, þrátt fyrir að skilyrði […] hafi ekki verið uppfyllt,“ segir í skýrslunni.
Árin 2019-2021 var byggingarréttargjald fyrir íbúðarhúsnæði 10.000-13.500 kr. á fermetra, en markaðsvirði byggingarréttar 101.000-120.000 kr. Þannig getur byggingarréttur, sem veittur var á afsláttarverði, numið tugmilljónum á hverri lóð.
Á Egilsgötu 5, þar sem nýtt deiliskipulag gerir ráð fyrir 4.898 m2 íbúðarbygginga, hefði byggingarréttargjald numið 49-66 milljónum króna. Lóðin var seld í nóvember 2024 fyrir 805 milljónir króna.
Sé þetta dæmi lagt til grundvallar gæti ávinningur olíufélaganna vegna niðurfellingar byggingarréttargjalda numið á bilinu 8-12 milljörðum króna þegar litið er til allra þeirra lóðarbreytinga sem samningar náðu til.
Í skýrslunni bendir IER á að slíkur munur geti haft þýðingu fyrir jafnræði, samkeppni og ríkisaðstoð. „Endurgjald fyrir byggingarrétt […] er ekki réttur mælikvarði á markaðsverðmæti umræddra réttinda,“ segir þar og gagnrýnt er að borgin hafi ekki metið lagalega áhættu af slíkum ívilnunum.
Helstu niðurstöður
Ekkert hefur komið fram sem bendir til brota á reglum
Málefnaleg sjónarmið ákvarðana voru oft óskýr
Hagsmuna borgarinnar var ekki nægjanlega gætt
Verulegt misræmi var á gjöldum og markaðsverði lóða
Reglur um samkeppni og opinbera aðstoð ekki greind
Mikilla úrbóta þörf
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
