Flensan er komin og einkenni skýr

Forvörn gegn flensunni.
Forvörn gegn flensunni. mbl.is/Hari

„Fyrstu flensutilvikin er komin og þetta er allt samkvæmt bókinni,“ segir Óskar Reykdalsson heilsugæslulæknir á Hlíðastöð í Reykjavík. Hiti, slappleiki, beinverkir og almennt þróttleysi eru dæmigerð einkenni inflúensu og í fyrradag höfðu nokkrir sem svo var ástatt um leitað til heilsugæslu. Greining á veikindum fólksins sem kom á stöðina til Óskars lá ekki fyrir, en hann sagði þó ekkert fara á milli mála.

„Flensan kemur oft um þetta leyti hausts. Svo færist þetta í aukana, til dæmis þegar kemur fram í nóvember og enn meira eftir nýár,“ segir Óskar.

Óskar Reykdalsson.
Óskar Reykdalsson.

Aðrir læknar á höfuðborgarsvæðinu sem Morgunblaðið ræddi við í fyrradag höfðu sömu sögu að segja. „Magapest hefur grasserað síðustu vikur og nú er flensan að skjóta upp kollinum,“ segir Oddur Steinarsson, framkvæmdastjóri og læknir á heilsugæslunni á Kirkjusandi. Þangað, svo og á fleiri stöðvar, hafa margir komið síðustu daga í bólusetningarsprautur, eins og til er hvatt.

Um flensu segir á heilsuvera.is að hún malli á tímabilinu október til mars. Einkennin eru þekkt og við þessu er fátt að gera nema drekka vel af vatni, hvíla sig og taka hitalækkandi lyf. Mikilvægt er að halda sig heima í sólarhring eftir að veikindin eru gengin yfir. Eftir 1-2 vikur ætti fólk svo að vera komið aftur á beinu brautina.

Við þetta er því að bæta að á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi er nú mikið álag og talsverð bið getur verið eftir þjónustu. Forgangsröðun þar fer eftir bráðleika veikinda og því er fólk hvatt til að leita annað áður, svo sem á heilsugæslustöðvar eða í netspjall á heilsuvera.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert