Alþingismenn úr öllum flokkum hafa tekið vel í tillögu Steinþórs Jónssonar, eiganda Hótel Keflavíkur, um breytingu á fánalögunum. Tillagan birtist í aðsendri grein eftir hann í Morgunblaðinu fyrr í vikunni.
Unnið er að gerð frumvarps um breytingar á fánalögum byggt á tillögu Steinþórs.
Þetta segir Steinþór í samtali við mbl.is.
Steinþór lagði á miðvikudag til að heimilt yrði að hafa íslenska fánann uppi allan sólarhringinn frá 15. maí til 15. september.
Í kjölfarið sendi hann tölvupóst á alla þingmenn og óskaði eftir afstöðu þeirra. Hann hefur fengið á þriðja tug svara til baka frá þingmönnum úr öllum flokkum og að hans sögn eru viðbrögðin öll jákvæð.
„Það var mjög gaman hvað viðbrögðin voru fljót að koma til baka. Greinilega eitthvað sem fólk var búið að hugsa um og tilbúið að bregðast við,” segir Steinþór.
Hafa komið jákvæð svör frá þingmönnum úr öllum flokkum?
„Ef ég tek daginn í dag með, þá hafa allir flokkar tekið vel í erindið,” segir Steinþór.
Steinþór segir að margir þingmenn hafi lýst yfir áhuga á því að taka þátt í þeirri vegferð að fylgja málinu eftir. Að sögn hans vinnur Vilhjálmur Árnason, þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokksins, nú að þverpólitísku frumvarpi byggðu á tillögunni.
„Þetta er svona tillaga okkar Íslendinga til okkar sjálfra – að virða okkur, okkar fána og landið okkar,” segir Steinþór.
Hann kveðst ekki undrandi yfir jákvæðum viðbrögðum enda sé um sjálfsagðar breytingar að ræða.
„Ég vona bara að þetta verði til þess að við öll fáum að njóta fánans okkar til framtíðar oftar og við tökum upp svona nýja siði og getum nýtt fánann án þess að hafa áhyggjur af því að brjóta lög,” segir Steinþór.
Steini segir að hann væri til í að sjá íslenska fánann blaktandi allan sólarhringinn á sumrin fyrir utan Hótel Keflavík og gamla Vatnsneshúsið, sem er glæsilegt hús sem stendur nálægt hótelinu.
„Þar myndi ég mjög gjarnan vilja sjá fána allan sólarhringinn á báðum þessum stöðum. Og mér finnst persónulega hótelið einmitt aldrei fallegra en þegar við erum að flagga öllum fánum á öllum stöngum. Við erum með sex stangir fyrir utan hótelið og eina fyrir utan Vatnsneshúsið,” segir hann.
Steinþór segir að það væri ánægjulegt ef þingmenn myndu í auknum mæli vinna að framgangi mála sem allir gætu sameinast um. Hann segir mikilvægt að klára slík mál og horfa til þess að margt sé til sem sameini fólk frekar en sundri.
„Það er mikið meira sem við erum sammála um heldur en ósammála,“ segir Steinþór og bætir við að þingmenn ættu að nýta það til að vinna að málum landsmönnum til heilla.