Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra mun á næstunni leggja fram á ný frumvarp sem hann segir að geti leitt til hagkvæmari húsnæðislána fyrir meirihluta lántaka, verði það samþykkt.
„Þetta er sem sagt innleiðing á Evrópureglum sem snúa að áhættumati á lánasöfnun,“ segir Daði í samtali við mbl.is.
„Mat fjármálaráðuneytisins er það að þessi innleiðing eigi að skapa svigrúm fyrir bankana til þess að bjóða hagkvæmari húsnæðislán af því að áhættuvog húsnæðislána er að breytast, íslenskum neytendum í hag.“
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra tók í svipaðan streng í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi á þriðjudaginn.
„Við vorum að afgreiða frumvarp fjármálaráðherra um CRR III, sem á mannamáli þýðir að það er verið að innleiða tilskipan frá Evrópusambandinu sem gerir fjármálafyrirtækjum kleift að taka aðeins betur mið af áhættu í sínum rekstri.
Við erum með ákveðnar væntingar um að þetta gæti falið í sér lægri vaxtakostnað hjá heimilunum ef þessu er fylgt eftir vegna þess að bankarnir á Íslandi eru með tiltölulega öruggar eignir ef maður horfir á húsnæðislánin þeirra,“ sagði forsætisráðherra.
Frumvarpið snýst um innleiðingu á Evrópureglugerð um eiginfjárkröfur til banka, svonefnda CRR III-reglugerð.
Reglugerðin er margþætt og innleiðing hennar kann að hafa misjöfn áhrif en í heildina litið er það mat ráðuneytisins að hún geti dregið úr eiginfjárkröfum til bankanna. Það gæti lækkað fjármögnunarkostnað þeirra, sem gæti skapað svigrúm til að lækka vexti á húsnæðislánum fyrir heimilin í landinu.
Þær breytingar sem koma til með að hafa mest áhrif hér á landi varða eiginfjárkröfur vegna húsnæðislána, einkum íbúðalána.
Eins og fjármálaráðherra sagði er áhættuvog húsnæðislána að breytast. Samkvæmt mati ráðuneytisins er það einkum sá þáttur frumvarpsins sem gæti komið til með að skapa svigrúm til að lækka vaxtakostnað heimilanna.
Við útreikning á eiginfjárkröfum vegna lánveitinga lánastofnana fá lán misjafnar áhættuvogir sem endurspegla hve áhættusöm þau eru. Því hærri sem vogin er þeim mun meira eigið fé verður lánastofnun að hafa til að bregðast við áhættu af láninu.
Áhættuvogir fasteignalána taka mið af veðhlutfalli, þ.e. hlutfalli lánsfjárhæðar af virði fasteignaveðs. Lán með hærra veðhlutfalli eru talin áhættusamari og eru áhættuvogir þeirra því hærri.
Meginreglan hefur verið að áhættuvog íbúðalána sé 35% ef veðhlutfall er ekki hærra en 80%, en áhættuvog þess hluta lána sem er umfram það sé almennt 75%. Með lögfestingu frumvarpsins verður meginreglan sú að áhættuvog íbúðalána sé 20% ef veðhlutfall er ekki hærra en 55%, en áhættuvog þess hluta sem er umfram það almennt 75%.
Breytingarnar fela þannig í sér að áhættuvog fyrir lán í heild verður lægra fyrir lán með veðhlutfall sem er undir 75,7% en hærra fyrir lán með hærra veðhlutfall.
Breyttu áhættuvogirnar geta leitt til þess að vextir lána með hófleg veðhlutföll verði lægri en ella en vextir lána með há veðhlutföll hærri.
Veðhlutfall meiri hluta nýrra íbúðalána hér á landi er undir 75,7%, þ.e. um þrír fjórðu íbúðalána vegna fyrstu kaupa og um 90% vegna annarra íbúðalána.
Breyttu áhættuvogirnar kunna því að leiða til lægri vaxta á meiri hluta íbúðalána en óbreyttar áhættuvogir.