Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt karlmann fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum.
Maðurinn, Hafþór Sigtryggsson, var dæmdur í 20 mánaða skilorðsbundið fangelsi og dæmdur til að greiða 63 milljónir í sekt til ríkissjóðs. Þá var honum gert að sæta atvinnurekstrarbanni í tvö ár.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 24. september en var birtur í dag, að héraðssaksóknari hafi ákært Hafþór í maí fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og almennum hegningarlögum.
Ákæran er í tveimur liðum. Í þeim fyrri segir að Hafþór hafi í sjálfstæðri atvinnustarfsemi hér á landi eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu á lögmæltum tíma vegna rekstrartímabilsins nóvember rekstrarárið 2023 og eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur hafi verið eða innheimta bar vegna uppgjörstímabilanna ágúst, september, október, nóvember og desember 2023 í samræmi við lög. Samtals að fjárhæð 22.211.082 krónur.
Í öðrum lið ákærunnar segir að Hafþór hafi í rekstri einkahlutafélags, sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri með prókúruumboð, eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur hafi verið, eða innheimta bar, í rekstri einkahlutafélagsins, vegna uppgjörstímabilanna nóvember og desember rekstrarárið 2020, janúar til desember rekstrarárið 2021 og frá janúar til desember rekstrarárið 2022 í samræmi við lög. Samtals að fjárhæð kr. 13.217.538 krónur.
Fram kemur í dómnum að Hafþór hafi játað sín brot skýlaust.
Samkvæmt framlögðu sakavottorði var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur árið 2022. Þá var honum gert að greiða sekt að fjárhæð 138.996.249 krónur.
Hafþór var jafnframt dæmdur í sjö mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir sambærileg brot í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2010 og gert að greiða sekt að fjárhæð 20.800.000 krónur.
Héraðsdómur segir að Hafþór sé nú í þriðja sinn sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt. Tekið er fram að brotin séu stórfelld en þau hafi falið í sér að hann stóð ekki skil á innheimtum virðisaukaskatti samtals að fjárhæð 35.428.620 krónur.
Þá segir héraðsdómur að brot Hafþórs teljist vera meiri háttar í skilningi laga vegna þeirrar fjárhæðar sem hann sé sakfelldur fyrir að standa ekki skil á. Við ákvörðun refsingar var litið til mildunar til þess að Hafþór hefur játað brot sín skýlaust.
Þá mótmælti Hafþór því að honum yrði gert að sæta atvinnurekstrarbanni. Héraðsdómur segir að í ljósi fyrri brota og alvarleika þeirra, og því að um háar fjárhæðir væri að ræða, yrði fallist á kröfu ákæruvaldsins um að Hafþór skyldi sæta atvinnurekstrarbanni. Hæfilegt þykir að það vari í tvö ár frá uppkvaðningu dómsins.