Hækkun leggst þyngst á tekjulága og landsbyggðina

Runólfur Ólafsson er formaður FÍB.
Runólfur Ólafsson er formaður FÍB.

Boðuð hækkun ríkisstjórnarinnar á vörugjöldum jarðefnaeldsneytis- og tengiltvinnbíla mun leggjast þyngst á landsbyggðina og tekjulægra fólk, að mati Runólfs Ólafssonar, formanns Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB).

Hann segir að hækkunin muni valda því að nýir eldsneytisbílar hækki um margar milljónir króna og að hún hafi einnig áhrif á verð notaðra bíla.

„Það má gera ráð fyrir því að notaðir eldsneytisbílar og þá sérstaklega tengiltvinnbílar muni hækka í verði, því hækkunin mun sáldrast út á markaðinn,“ segir Runólfur í samtali við mbl.is. „Tekjuminni fjölskyldur eru á notaða markaðnum og þetta mun koma verr út gagnvart því fólki.“

Þyngri bílar algengari úti á landi

Runólfur bendir á að á landsbyggðinni sé algengara að fólk keyri á stærri og þyngri bílum. Því muni hækkun vörugjalda leggjast þyngra á íbúa utan höfuðborgarsvæðisins.

„Á landsbyggðinni eru margir háðir stærri bílum vegna aðstæðna og atvinnu. Þeir munu finna mest fyrir þessu,“ segir hann.

Efast um tekjuaukningu stjórnvalda

Hann segir jafnframt að áform stjórnvalda um að auka tekjur ríkissjóðs um allt að átta milljarða króna með hækkuninni séu óraunhæf.

„Bílaumboðin munu reyna hvað þau geta að flytja inn bíla fyrir áramót áður en vörugjöldin taka gildi,“ segir Runólfur. „Það kann að verða einhver tekjuaukning fram að áramótum en strax á næsta ári mun innflutningur dragast saman.“

Stefnt að hraðari orkuskiptum

Að sögn Runólfs er ljóst að markmið stjórnvalda með hækkuninni sé að flýta orkuskiptum með því að gera önnur ökutæki en rafbíla dýrari.

„Það er greinilega stefna stjórnvalda að fara örar í orkuskipti og það er gert með því að hækka önnur ökutæki en rafbíla. Þetta er þá neyslustýring,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka