Hafdís ekki búin að taka ákvörðun um framboð

Hafdís kveðst ekki vera búin að taka ákvörðun um framboð.
Hafdís kveðst ekki vera búin að taka ákvörðun um framboð. Samsett mynd/Óttar/Sigurður Bogi

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknar, hefur fengið áskoranir um að leiða lista Framsóknar í Árborg fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Hún kveðst þó ekki hafa tekið ákvörðun um framboð. 

Þetta staðfestir hún í samtali við mbl.is. 

„Ég er búin að fá mikið af áskorunum en ég veit ekki hvað ég geri,“ segir Hafdís, innt eftir svörum frá blaðamanni við orðrómum um að hún liggi undir feldi. 

Sat á þingi í þrjú ár

Hafdís starfar nú sem lögfræðingur hjá nefnd um eftirlit með lögreglu en hún sat á þingi fyrir Framsókn í Suðurkjördæmi árin 2021-2024.

Framsókn fékk 19,3% fylgi í síðustu sveitarstjórnarkosningum í Árborg og fékk tvo bæjarfulltrúa kjörna af 11. Flokkurinn er í minnihluta í bæjarstjórn.

Sveitarstjórnarkosningar fara fram um miðjan maí á næsta ári en helstu flokkar munu kynna lista sína víða um land í janúar og febrúar á næsta ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert