Íslendingur tapaði yfir 50 milljónum í netsvikum

Í apríl var málafjöldinn orðinn jafn mikill og hann var …
Í apríl var málafjöldinn orðinn jafn mikill og hann var yfir allt árið 2024. Samsett mynd/Landsbankinn

Gríðarleg aukning hefur verið á netsvikum á Íslandi. Svikin hafa þróast, eru trúverðugri og menn eru jafnvel farnir að mæta heim til fólks. Mesta fjárhæðin sem tekin hefur verið af einum einstaklingi er rúmlega 50 milljónir.

Þetta er meðal þess sem Brynja María Ólafsdóttir, sérfræðingur í regluvörslu Landsbanka, sagði á málþingi um ofbeldi gegn eldra fólki, sem Landssamband eldri borgara hélt í gær.

Brynja hefur starfað hjá bankanum í 18 ár og hefur á þeim tíma orðið vitni að fjárhagslegu ofbeldi í ýmsum birtingarmyndum.

„Stundum held ég að ég hafi séð allt en þá kemur alltaf eitthvað nýtt upp á borð hjá okkur,“ sagði hún.

Er eldra fólk sérstakt skotmark netsvikara?

Brynja sagði málafjöldann hafa tvöfaldast á milli ára og að á þessu ári hefði rúmur hálfur milljarður farið út af bankareikningum Íslendinga.

„Mín getgáta er sú að þessar fjárhæðir séu mun hærri en við sjáum í kerfunum hjá okkur. Í mörgum tilfellum er svo mikil skömm um þessi mál og það eru bara ekkert allir sem tilkynna um þetta eða kæra til lögreglu þegar þeir hafa orðið fyrir svikum,“ sagði hún.

Í apríl hefði málafjöldinn verið orðinn jafn mikill og hann var yfir allt árið 2024.

„Ekki má gleyma ástarsvikunum“

Þegar horft er á sérstakar tegundir svika sést að eldri einstaklingar geta fallið fyrir ákveðnum svikum sem yngri gera jafnan ekki.

Svikin geta verið í gegnum skilaboð á samfélagsmiðlum, í gegnum tölvupósta og sms, fjárfestingar og símtöl.

Mikil aukning hefur einnig verið á svikum í gegnum sölusíður og leiki á samfélagsmiðlum. Fólk freistast þá til að taka þátt í leikjum sem eru í rauninni tilbúningur til að stela peningum af því.

„Ekki má gleyma ástarsvikunum,“ sagði Brynja en annað slagið koma upp ástarsvik þar sem reynt er að svíkja á fólki sem hefur misst maka og er að leita sér að félagskap.

Einstaklingar með einbeittan brotavilja mynda traust án þess að hitta viðkomandi og plata svo af honum peninga.

Nýjustu póstarnir eru rukkanir í nafni raforkufyrirtækja

Svikavakt Landsbankans hefur í sumar verið að fást við sms- og tölvupóstasvik. Skilaboðin eru yfirleitt í vörumerkjum sem almenningur þekkir, t.d. frá Skattinum.

Nýjustu póstarnir eru í nafni raforkufyrirtækja þar sem haldið er fram að reikningur sé ógreiddur.

„Ég segi öllum sem eru að takast á við netsvik, sama hvað við erum gömul, að lykilreglan sem við setjum okkur er að við smellum aldrei á hlekki í tölvupóstum,“ sagði Brynja.

Ef reikningur er raunverulega ógreiddur fari það aldrei í gegnum hlekk frá þriðja aðila heldur alltaf í gegnum heimabanka eða heimasíðu viðkomandi fyrirtækis.

„Ég fer alltaf inn á posturinn.is eða skatturinn.is og skrái mig þar inn með rafrænum skilríkjum til að kanna hvort það sé eitthvað sem þarf að uppfæra eða ógreiddir reikningar,“ sagði hún enn fremur.

200 manns smelltu á falsaða auglýsingu af Kára Stef að selja vítamín

Sem áður segir eru svik algeng í gegnum leiki á samfélagsmiðlum. 

„Þarna er verið að nota raunverulega leiki og búa til svikasíður á bak við þá, til þess að fá fólk til að skrá kortaupplýsingarnar sínar og taka á móti vinningum. En við vitum að við tökum aldrei á móti vinningum með því að skrá kortaupplýsingar.“

Auglýsingar á samfélagsmiðlum eru líka algengur vettvangur. Dæmi um eina slíka er fölsuð auglýsing sem gekk um samfélagsmiðla þar sem mynd var af Kára Stefánssyni og látið líta út fyrir að hann væri að auglýsa vítamín.

Fyrirsögn auglýsingarinnar var: „Eftir svona hreinsun æðakerfisins losna eldri Íslendingar loksins við háþrýsting og 9 aðrar svokallaðar „ólæknandi“ sjúkdómar!“

Þannig er auglýsingunum beint að eldra fólki. Að sögn Brynju varð Landsbankinn að hringja í um 200 einstaklinga sem höfðu smellt á auglýsinguna og gefið upp kortaupplýsingarnar sínar.

Í mörgum tilvikum hafði fólk ekki áttað sig á svikunum fyrr en það fékk símtal frá bankanum.

Erfitt að setja upp varnir gegn mannlegri hegðun

Brynja sagði það mannlega hegðun að smella á hlekki og ná í forrit í símann. Þannig sé erfitt fyrir fjármálafyrirtæki að setja upp varnir gagnvart hegðuninni.

Í tilfellum þar sem svik hafa orðið í gegnum skilaboð á samfélagsmiðlum hafi bankanum þó tekist að endurheimta yfir 100 milljónir í heildina.

Það sem af er ári hefur bankinn skráð tæplega 1.100 mál í kerfið hjá sér. Öll mál sem tengjast svikum á einhvern hátt eru skráð.

Fjártjón verður í rúmlega 30% mála. Þannig var fjármunum ekki tapað í öllum tilfellum heldur tókst í mörgum tilfellum að stöðva greiðslur, endurheimta fjármuni, eða að einstaklingur hafi stöðvað ferlið með því að samþykkja ekki auðkenninguna sem kemur í símtækið.

„Í þessum 1.100 málum erum við með fjártjón í tæplega 300 málum, og það er bara allt of mikið finnst mér,“ sagði Brynja.

Það sem af er ári hefur bankinn skráð tæplega 1.100 …
Það sem af er ári hefur bankinn skráð tæplega 1.100 mál í kerfið hjá sér. Öll mál sem tengjast svikum á einhvern hátt eru skráð. Ljósmynd/Colourbox

50 milljóna tap hjá einum einstaklingi

Í einstaka málum, einkum fjárfestingavikum, er um að ræða gríðarlegt fjártjón.

Auglýsingarnar eru sannfærandi og fylgja mynd af þekktu fólki – t.d. Katrínu Jakobsdóttur, Elon Musk og Boga Ágústssyni.

Mesta fjártjón í kerfinu í dag er yfir 50 milljónir hjá einum einstaklingi.

„Viðkomandi einstaklingur er að detta inn á eftirlaunaaldur, búinn að eyða allri ævinni í að safna til að eiga, og svo er í rauninni bara ekkert eftir. Þetta er ótrúlega erfitt að eiga við, og erfitt að eiga þessi samtöl við fólk sem er í þessari aðstöðu,“ sagði Brynja.

Þykjast vera bankastarfsmenn

Símtalasvik hófust á Íslandi fyrir um ári síðan. Landsbankinn hefur verið í samstarfi við aðra banka á Norðurlöndunum og bankarnir lært mikið hver af öðrum.

Í þessum tilfellum hefur símkerfið verið hakkað til að láta líta út fyrir að íslenskt númer sé að hringja. Einstaklingurinn sem á símanúmerið veit ekki að verið sé að nota það. Svikararnir tala ensku en eru búnir að kynna sér þann sem hringt er í og ávarpa hann með nafni.

Helsta ógnin hjá bönkum á Norðurlöndunum er þegar svikararnir hringja og þykjast vera bankastarfsmenn. Þetta sagði Brynja væntanlegt að komi til Íslands á næstu árum.

Mikil ógn stafar einnig af því þegar svikararnir segjast vera að hringja frá Microsoft og blekkja fólk til að hlaða niður svokölluðum yfirtökuforritum inn á tækin sín. Forritin gefa svikaranum fullan aðgang og stjórn á tækinu.

Þeir biðja viðkomandi að skrá sig inn í heimabankann, og þar sem þeir hafa fullan aðgang að tækinu sjá þeir PIN-númerið þegar það er slegið inn og geta þannig tekið til við að framkvæma ýmislegt.

Farnir að mæta á heimili fólks

Brynja talaði einnig um nýja ógn sem fjallað var um á mbl.is í síðasta mánuði. Þar var hringt í viðkomandi og honum tilkynnt um meintan vírus í tölvunni hans.

Maðurinn í símanum myndi senda mann til hans honum til aðstoðar. Maðurinn mætti á heimilið, hlóð yfirtökuforriti inn á tölvuna og stal miklum fjármunum.

Þegar hann yfirgaf heimilið hafði hann einnig tekið þaðan einhverja veraldlega muni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka