Auk íslensku flugfélaganna Icelandair og Play, sem lýsti yfir gjaldþroti í síðasta mánuði, hefur ítalska leiguflugfélagið Neos sótt um að fá úthlutað losunarheimildum frá íslenska ríkinu til að gera upp losun gróðurhúslofttegunda vegna flugs til og frá Íslandi.
Ítalska flugfélagið hefur meðal annars flogið með farþega íslenskra ferðaskrifstofa til sólarlanda.
Frá þessu greindi Vísir. Ólíklegt sé að Play fái viðbótarúthlutun vegna falls félagsins. Fari svo geti kostnaður ríkisins orðið rúmar 477 milljónir, vegna úthlutunar til Icelandair og Neos.
Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfis- og orkustofnun er Íslandi heimilt að úthluta flugrekendum auka endurgjaldslausum heimildum í ár og á næsta ári fyrir flug til og frá Íslandi á flugleiðum sem falla undir ETS-kerfið.
Þetta er þó ekki viðbót við heimildir Íslands heldur dragast viðbótarheimildirnar frá þeim losunarheimildum sem íslenska ríkið myndi annars bjóða upp á uppboði.
Viðbótarúthlutunin er háð því að flugrekandi hafi skilað inn vottaðri kolefnishlutleysisáætlun og gildir jafnræðisregla milli flugfélaga á sömu leiðum.
Líkt og fram kom í frétt Vísis fellur losun flugfélaganna á gróðurhúsalofttegundum undir evrópska viðskiptakerfið með losunarheimildir (ETS).
Tiltekinn fjöldi heimilda hefur verið þeim endurgjaldslaus undanfarin ár en með losunarmarkmiði Evrópusambandsins fyrir árið 2030 er ráðgert að hætta þessum fríu heimildum.
Þannig fækkaði þeim um fjórðung í fyrra, helming í ár og munu hverfa á næsta ári.
Íslensk stjórnvöld óskuðu eftir aðlögunartíma að hertum losunarkröfum og er fyrirkomulagið þannig tímabundið og ætlað að mæta sérstöðu Íslands sem landfræðilega afskekkt eyja, þar sem landið er háðara flugsamgöngum en önnur í Evrópu og flugvegalengdir meiri en milli annarra flugvalla í heimsálfunni.