Framsóknarmenn bíða með eftirvæntingu eftir formannsávarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar á haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins á morgun. Þar mun hann án vafa gefa vísbendingu um pólitíska framtíð sína, hvort hann hrökkvi eða stökkvi.
Forystumál flokksins hafa í raun verið í uppnámi allt frá því að flokkurinn galt afhroð í alþingiskosningum liðið haust og missti átta þingmenn. Sigurður Ingi hélt þá naumlega velli sem einn fimm þingmanna flokksins, en þá þegar heyrðust raddir um að formaðurinn yrði að axla ábyrgð á ósigrinum.
Til þess var Sigurður hins vegar í þröngri stöðu. Lilja Alfreðsdóttir varaformaður hafði fallið af þingi og voru ýmsir þeirrar skoðunar að formaðurinn gæti tæplega verið utan þings.
Þess utan sögðu sumir að Sigurður Ingi gæti ekki unnt Lilju þess að taka við flokknum. Ákvörðunin hefði t.d. verið einfaldari ef Willum Þór Þórsson hefði náð kjöri sem uppbótarmaður en ekki Sigurður Ingi, eins og um hríð virtist möguleiki.
Stuðningsmenn Lilju segja hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að formaðurinn sé utan þings, í þröngri stöðu myndi það raunar breikka ásýnd flokksins, að þar væru sex í framvarðarsveit í landsmálunum en ekki fimm.
Hvernig sem því er farið hefur allt frá kosningum verið nokkur hreyfing fyrir formannaskiptum. Á vorfundi miðstjórnar á Akureyri var þannig tekin fyrir tillaga um að flýta flokksþingi til þess að efna til formannskjörs, en hún var felld að ráði Sigurðar Inga, naumlega þó.
Nú verður hins vegar ekki lengur hjá því komist að efna til flokksþings, það ber að halda ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti og því ekki síðar en í maí á næsta ári. Þá verður hins vegar kosningabarátta fyrir sveitarstjórnarkosningar í algleymi, svo að sennilega horfa menn frekar til febrúar eða mars í þeim efnum.
Og enn er rætt um að skipta þurfi um formann, m.a. með tilliti til kosninganna.
Þess vegna vænta menn þess að Sigurður Ingi tjái hug sinn með afdráttarlausum hætti, en einn miðstjórnarmanna, sem Morgunblaðið ræddi við, sagði að valið stæði um það hvort hann hætti á eigin forsendum nú eða ætti niðurlægingu á hættu á nýju ári.
Þegar spurt er hverjir komi til greina sem arftakar er Lilja ein talin eiga raunhæfa möguleika, þótt vitaskuld sé enn löng leið að flokksþingi. Þingmenn flokksins eru ekki sagðir hafa látið slíkan metnað í ljós, en nefnt að Einar Þorsteinsson þurfi að sanna sig í komandi kosningum áður en hann eigi frekari frama í vændum. Sumir nefna þó að Willum væri þeirra óskakandídat, en hann er sagður hæstánægður sem forseti ÍSÍ og hafa nóg fyrir stafni.
Boðun 38. flokksþings er þó ekki eina ákvörðunin, sem bíður miðstjórnarfundarins. Þar verður kjörinn ritari og hafa þrjú gefið kost á sér: Einar Freyr Elínarson, oddviti og sveitarstjóri í Mýrdalshreppi, Jóhanna Brynjólfsdóttir, oddviti í Múlaþingi, og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, fv. þingmaður í Norðvesturkjördæmi.
Nokkuð er rætt um að rétt sé að sveitarstjórnarmaður skipi ritaraembættið að nýju, en þannig var því háttað uns Ásmundur Einar Daðason þáv. ráðherra var kjörinn til þess. Hann sagði af sér sem slíkur í liðnum mánuði og sagði raunar skilið við stjórnmálin í leiðinni, en hann féll af þingi í fyrra.
Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins fer fram á Hilton Reykjavík Nordica hóteli og hefst á morgun kl. 12.20. Tíu mínútum síðar flytur Sigurður Ingi Jóhannsson formaður yfirlitsræðu sína, en Lilja Dögg Alfreðsdóttir varaformaður flytur ræðu á eftir honum.
Þá hefst málefnastarf en kosning ritara á að hefjast kl. 16.40. Ráðgert er að fundi verði slitið kl. 17.30, en veisla verður um kvöldið.
Í miðstjórn sitja nær 90 manns, en allir kjörnir fulltrúar flokksins, þar á meðal 69 sveitarstjórnarmenn, auk fleiri trúnaðarmanna annarra hafa þar einnig seturétt.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
