„Risastór ógn á innlendum markaði“

Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar.
Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar. Samsett mynd Ljósmynd/Aðsend/mbl.is/Eggert

Áskriftarsala fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækisins Sýnar hefur verið undir væntingum. Þar spila ýmsir þættir inn í, svo sem nýleg ákvörðun Fjarskiptastofu um flutningsrétt keppinauts á öllu línulegu sjónvarpsefni Sýnar, aðgerðaleysi stjórnvalda og notkun almennings á ólöglegum streymisveitum.

Þetta segir Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, í samtali við mbl.is.

Sýn sendi frá sér afkomuviðvörun í gær og boðaði verri afkomu en áður hafði verið spáð. Jafnframt var greint frá sameiningu sviða og mögulegri hagræðingu. Í kjölfarið var boðað til starfsmannafundar klukkan 11 í dag, en tilkynnt var að nokkrum starfsmönnum hafði verið sagt upp.

Samkvæmt afkomuviðvöruninni frá í gær gerir félagið ráð fyrir að rekstrarhagnaður (EBIT) verði um 280 milljónir króna á árinu, sem er talsvert minna en áður var áætlað. Í fyrri spá, sem birt var í ágúst, var gert ráð fyrir hagnaði á bilinu 800 til 1.000 milljónir króna.

EBITDAaL, sem mælir rekstrarhagnað fyrir fjármagnsliði og afskriftir, er nú áætlaður um 3.450 milljónir króna, samanborið við 4.000–4.200 milljónir í fyrri spá, sem er um 500 milljóna króna lækkun.

Áskriftarsala verið undir væntingum

Sem eina ástæðu nefnir Herdís að oft byrji nýir viðskiptavinir að nota þjónustu fyrirtækisins í gegnum ákveðin kynningartilboð og að raunverulegi tekjuávinningurinn komi því síðar.

Hún segir áskriftarsölu fyrirtækisins þó einnig hafa verið undir væntingum.

„Það má segja, eins og kemur líka fram í þessari tilkynningu frá okkur, að nýleg ákvörðun Fjarskiptastofu hefur áhrif,“ segir Herdís og vísar til bráðabirgðaákvörðunar stofnunarinnar þar sem „Sýn var þvingað til að dreifa efni í gegnum lokað dreifikerfi Símans.“

„Þessi ákvörðun er mjög sérstök. Hún kemur raunverulega í veg fyrir að fyrirtæki geti aðgreint sig á markaði. Þarna erum við að horfa á líka að við erum í samkeppni við keppinauta hérna á landinu og Síminn er markaðsráðandi aðili og í raun viðheldur sinni markaðsráðandi stöðu með þessari ákvörðun Fjarskiptastofu,“ segir Herdís og nefnir að ákvörðunin komi í veg fyrir heilbrigða samkeppni.

Aðgerðaleysi hjá stjórnvöldum

Samþykkt var á Alþingi í gær að minnka hámarkshlutfall sem hver fjölmiðill getur fengið úthlutað úr þeim potti sem verja á til stuðnings fjölmiðlum. Var hámarkið lækkað hlutfallið úr 25% niður í 22% og liggur fyrir að það muni koma niður á Árvakri og Sýn.

Aðspurð um lagabreytinguna segir Herdís að þegar horft sé á hlutina í stærra samhengi sé aðgerðaleysi stjórnvalda, þegar kemur að samkeppni fjölmiðla á markaði, heilt yfir slæmt.

Þá sé hún annars vegar að tala um aðgerðaleysi stjórnvalda gagnvart erlendum streymisveitum og miðlum og hins vegar gagnvart stöðu RÚV á markaðnum, sem njóti góðs af tvöföldu fjármögnunarlíkani; annars vegar opinberum fjárlögum og hins vegar tekjum af auglýsingasölu.

Á meðan séu innlendir miðlar á borð við Vísi og sjónvarpsstöðina Sýn að treysta eingöngu á auglýsingatekjur. Þar hafi staðan versnað undanfarin ár og hlutdeild erlendra miðla á borð við Facebook og Google vaxið mikið, en Herdís segir þá miðla vera með um 50% af heildarauglýsingamarkaðnum. Það hafi þau áhrif að hlutdeild innlendra miðla hafi samhliða minnkað. Þá borgi hinir erlendu miðlar ekki menningarframlag eða skatta til Íslands að hennar sögn.

Það sama eigi við um erlendar streymisveitur sem hafa orðið sífellt vinsælli hér á landi. Boðað hefur þó verið til breytinga í þeim efnum með nýju frumvarpi, sem Herdís gagnrýnir og segir að muni bitna á Sýn verði það samþykkt í núverandi mynd.

Ósætti með frumvarp um streymisveitnaskatt

Í samráðsgáttinni má sjá að Sýn hefur skilað inn athugasemd vegna frumvarpsins, þar sem því er harðlega mótmælt.

Segir Herdís að ný skilgreining á innlendu efni útiloki stóran hluta eigin framleiðslunnar, svo sem skemmtiþætti og á borð við Kviss, Ísskápastríð og Gulli byggir, frá frádrætti við útreikning 5% menningarskatts. Af því leiði að Sýn geti síður nýtt eigin framleiðslu til að draga úr skattbyrði og þurfi að greiða tugi milljóna í viðbót.

„Ég trúi ekki öðru en að þarna hafi átt sér stað ákveðin mistök og að þetta muni vonandi breytast þannig að Sýn sé ekki eina innlenda streymisveitan sem verði fyrir þessum skatti og myndi þar af veikja okkar rekstrargrundvöll,“ segir Herdís.

Stór hluti landsmanna sækir efni ólöglega

Þá nefnir Herdís sömuleiðis að ákveðið aðgerðarleysi ríki hjá stjórnvöldum þegar kemur að baráttunni gegn stolnu efni.

„Ólöglegar streymisveitur og ólöglegt niðurhal er alveg gríðarlegt á Íslandi. Það er talað um að það sé um 30% íslenskra heimila sem stunda þetta og nýta sér ólöglegar streymisveitur. Í nágrannaríkjum okkar eru viðurlög gagnvart þessu mun, mun hærri heldur en á Íslandi. Menn eru að kynna þetta til leiks á ýmsum síðum hérna og það er enginn sem gerir neitt.“

Segir Herdís Sýn hafa margoft reynt að vekja athygli á málinu, hvort sem það sé með ráðstefnum, í fjölmiðlum eða í samtölum við ráðuneytin, þar sem grípa þurfi inn í.

„Þetta eru gríðarlegir fjármunir sem fjölmiðlaveitur verða af vegna þessa. Við erum að kaupa efni og dreifa því til landsmanna þannig að þeir geti notið góðs efnis, og við erum að framleiða gott efni líka. Svo er þessu stolið og við fáum ekkert. Þetta er risastór ógn á innlendum markaði og það sem gerist er að við hættum að geta framleitt efni eða keypt gott efni og dreift því til landsmanna vegna þess að þeir borga einhverjum óprúttnum aðilum fyrir þessa þjónustu sem við erum að veita - og þeir bera engan kostnað. Þetta þarf að vekja almenning í landinu til umhugsunar um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka