„Hafi einhver haft vonir um að það sé hægt að starfa með hryðjuverkasamtökum Hamas að því að byggja upp þjóðfélag á Gaza þá hljóta þær vonir að hafa brugðist,“ skrifar Sigurður Már Jónsson, blaðamaður, rithöfundur og pistlaskrifari, á bloggsíðu sína um aftökur liðsmanna Hamas-hryðjuverkasamtakanna á meintum samstarfsmönnum Ísraelsmanna sem verið hafa í heimsfréttum síðustu daga.
Segir Sigurður heiminn nú fá að horfa upp á myndefni sem sýni aftökur með hnakkaskotum án dóms og laga og vitnar í Slysaskot í Palestínu, kvæði Kristjáns frá Djúpalæk úr ljóðabók hans Í þagnarskógi sem út kom árið 1948.
Fréttir af ofbeldinu birtast víða á samfélagsmiðlum, bendir Sigurður á í pistli sínum og nefnir þar sérstaklega myndskeið sem sýnir hóp grímuklæddra manna, suma þeirra með höfuðbönd að hætti Hamas, drepa átta manns sem krjúpa á jörðinni með bundið fyrir augu og orðar Sigurður þá hugleiðingu sína að þar sé merki um þá grimmd sem Hamas hyggist styðjast við til að endurvekja stöðu sína sem ráðandi afl á Gasa.
Viðbrögð heimsbyggðarinnar hafi flest verið hryllingur yfir framgöngu Hamas, segir Sigurður og í framhaldinu að ummæli Hjálmtýs Heiðdal á samfélagsmiðlum, formanns samtakanna Ísland-Palestína, skeri sig úr, en þar segir Hjálmtýr í athugasemd að glæpamenn hafi myrt palestínskan blaðamann sem Hamas drepi og í kjölfarið: „Þessir glæpamenn hafa notið stuðnings Ísraels og getað leikið lausum hala á Gaza. M.a. stolið mat og drepið Hamasliða.“
Skrifar Sigurður að ekki verði annað séð en Hjálmtýr sé að reyna að réttlæta atvikið. „Það þarf ekki að taka fram að þetta er aftaka án dóms og laga, ekkert lögmæti er fyrir hendi sem réttlætir verknaðinn. Hann er hrein og klár hefnd og sýnir hvernig Hamas vinnur.“
Segir Sigurður palestínskar fylkingar og mannréttindasamtök hafa fordæmt aftökurnar. Hafi skrifstofa Mahmoud Abbas Palestínuforseta sent frá sér yfirlýsingu þess efnis en bandaríska dagblaðið New York Times hafi eftir sérfræðingum að Hamas virðist vera að reyna að sýna fram á að samtökin séu enn ráðandi afl á svæðinu, sama hversu veikluð þau séu eftir tveggja ára stríð við Ísrael.