Rannsóknarverkefni úr smiðju dr. Hrefnu Daggar Gunnarsdóttur, lektors við Lagadeild Háskóla Íslands, hlaut nýverið styrk upp á þrjár milljónir dollara eða 360 milljónir króna frá alþjóðlega vísindasjóðnum Wellcome Trust.
Rannsóknin, sem ber heitið Fostering Reciprocity in Environmental DNA science through Yielded stewardship, Just benefit, and Accountability, eða FREYJA, miðar að því að efla gagnkvæmni í umhverfiserfðafræði, einkum þegar kemur að hagnýtingu vísindaniðurstaðna.
Hrefna Dögg stýrir rannsókninni og segir að markmiðið sé að rannsaka gagnkvæmni milli samfélags og vísinda í samtali við mbl.is.
Í því felist m.a. að samfélög sem veiti aðgang að svæðum svo stunda megi vísindarannsóknirnar njóti sanngjarns ávinnings af þeim verðmætum sem kunna að skapast við hagnýtingu gagnanna sem safnað er.
„FREYJA snýst um að vísindin og hagnýting vísindagagna skili sanngjörnum ávinningi til baka til samfélaga sem veita bæði aðgengi að landi og leggja sína staðbundnu þekkingu að mörkum til rannsókna. Það hefur lengi tíðkast að nota niðurstöður úr rannsóknum í hagnaðarskyni og það eru til reglur um skiptingu fjárhagslegs ávinnings af hagnýtingu vísindarannsókna. Þær reglur ná hins vegar eingöngu til áþreifanlegra verðmæta en ekki til þess þegar gögnin eru orðin stafræn,“ segir Hrefna og nefnir dæmi til einföldunar:
„Ef þú bankaðir upp á og fengir leyfi til að grafa eftir gulli í garðinum hjá mér til að geta rannsakað, segjum t.d. aldur gullsins, þá væri það auðsótt. En þér myndi aldrei detta í hug að láta gullið af hendi til þriðja aðila eða selja gullið án þess að semja við mig um skiptingu hagnaðarins eða a.m.k. fá mitt leyfi. Reglur um þekkt, áþreifanleg verðmæti hafa lengi legið fyrir. En um leið og gögnin sem við tengjum verðmætið við eru stafræn og þar af leiðandi ekki lengur áþreifanleg, þá siglum við í strand. Reglurnar eru ekki til, og samtalið um gagnkvæmni í þessu samhengi er rétt að hefjast, sér í lagi með tilkomu FREYJU. Þar liggur í raun kjarninn í því sem við erum að skoða.“
Hrefna segir að rannsóknin sé bæði umfangsmikil og alþjóðleg. Þá felist hún í þverfaglegu samstarfi rannsakenda FREYJU, vísindamanna í umhverfiserfðafræði og fulltrúa frumbyggjasamfélaga, m.a. á Páskaeyju.
„Við fengum þrjár milljónir bandaríkjadala til 24 mánaða og þurfum því að skila niðurstöðum innan tveggja ára. Rannsóknin mun skapa störf fyrir allt að fimmtán sérfræðinga, bæði hér á landi og erlendis,“ segir hún og bætir við:
„Við erum að ráða fólk til starfa. Lögfræðihópurinn er þegar farinn af stað og þá munum við líka vera með teymi við Gervigreindarsetur Háskóla Íslands sem mun þróa líkan sem styður við heimildaöflun og vinnslu. FREYJA er síðan með afar hæfa meðrannsakendur sem hver leiðir sína vinnuhópa. Það eru þau Sonia Haoa, Janet Jull og Maui Hudson, en þau eru m.a. að leiða undirbúning vettvangsvinnu til að kanna viðhorf almennings til gagnkvæmni í vísindum, og undirbúa þekkingarmiðlun og hæfniuppbyggingu vísindafólks þannig að lærdómurinn nýtist beint í starfi þeirra sem vinna með umhverfiserfðafræði.“
Hrefna segir að í styrknum felist mikil viðurkenning fyrir íslenskt vísindasamfélag, þar á meðal lögfræðirannsóknir.
„Í því felst veruleg viðurkenning á gæðum rannsóknarinnar og traust til Lagadeildar og Háskóla Íslands að fá svona stóran styrk frá eins virtum sjóði og Wellcome Trust. Við tökum þakklát, auðmjúk og spennt við því sem fram undan er,“ segir hún að lokum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
