„Það er ekki útséð með framtíð PCC á Bakka“

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segist hafa mikla trú á tækifærunum á …
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segist hafa mikla trú á tækifærunum á Bakka og í nágrenni Húsavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfshópur um atvinnumál á Húsavík og nágrenni hefur skilað skýrslu sinni og var hún rædd á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Forsætisráðherra segir að það sé ekki útséð með framtíð PCC á Bakka.

Forsætisráðherra skipaði starfshópinn í júní en verkefni hans var að kortleggja stöðu atvinnumála á svæðinu og vinna tillögur að viðbrögðum stjórnvalda í kjölfar tímabundinnar rekstrarstöðvunar kísilvers PCC á Bakka, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.

Hefur mikla trú á tækifærunum á Bakka

„Ég hef mikla trú á tækifærunum á Bakka og í nágrenni Húsavíkur. Forsætisráðuneytið hefur átt í nánu samstarfi við Norðurþing og aðra hagaðila við gerð þessarar skýrslu. Og við höfum meðal annars rætt við sex áhugasama fjárfesta sem vilja koma að uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu. Gagnaver eru til dæmis möguleiki sem getur farið hratt í framkvæmd,“ er haft eftir Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra í tilefni af útgáfu skýrslunnar.

Þá kemur fram að í skýrslunni sé lögð áhersla á að mikil tækifæri séu til staðar varðandi uppbyggingu starfsemi á Bakka. Þar hafi verið byggðir upp öflugir innviðir og mikið starf unnið við þróun græns iðngarðs sem geri svæðið eftirsóknarvert fyrir fjárfesta. Þannig fundaði starfshópurinn með sex áhugasömum aðilum sem eru að skoða kosti þess að hefja starfsemi á Bakka eða í Norðurþingi. Þó sé ljóst að styrkja þarf innviði á ákveðnum sviðum, en það fari allt eftir þeirri starfsemi sem mögulega kemur á svæðið.

Ýmsar góðar tillögur

„Það er ekki útséð með framtíð PCC á Bakka. Við erum auðvitað enn í virkri hagsmunagæslu þegar kemur að verndarráðstöfunum ESB til dæmis. Það skiptir máli,“ er jafnframt haft eftir forsætisráðherra.

„Þarna eru ýmsar góðar tillögur. Ein er sú að ríkið komi inn af festu með sérstökum verkefnastjóra sem haldi utan um vinnu við atvinnuuppbyggingu á svæðinu og fylgi eftir þeim fjárfestingaverkefnum sem eru í skoðun.“

Starfshópurinn setur í skýrslunni fram fimm tillögur að aðgerðum stjórnvalda til skemmri og lengri tíma til að styðja við atvinnuþróun á svæðinu:

  1. Fenginn verði verkefnastjóri sem hefur m.a. það hlutverk að hraða vinnu við þróun nýrra verkefna á Bakka og nýta þá innviði sem eru þegar til staðar. Viðkomandi samhæfi aðgerðir sem styðja við atvinnuþróun og uppbyggingu iðngarðs og markaðssetningu svæðisins. Verkefnisstjórinn njóti liðsinnis frá nýjum verkefnastjóra stórfjárfestinga í forsætisráðuneytinu. Gert er ráð fyrir að ríkið standi undir 80% kostnaðar vegna verkefnastjóra en sveitarfélagið Norðurþing 20%.
  2. Leyfisferlar einfaldaðir þegar kemur að uppbyggingu atvinnu og raforkukerfisins almennt. Komið verði á fót „allt á einum stað“ (e. one stop shop) ferli sem veitir fjárfestum aðstoð og leiðbeiningar. Tillagan gagnast landinu öllu.
  3. Ráðast í og afgreiða með skilvirkum hætti styrkingu flutningskerfis raforku og auka orkuöflun á Norðausturlandi. Tillagan gagnast fleiri svæðum.
  4. Samgöngur og alþjóðatengingar efldar, þ.m.t. hafnarframkvæmdir. Tillagan gagnast stærra svæði. Umfang styrkingu innviða fer þó allt eftir þeim verkefnum sem mögulega eru undir.
  5. Uppbygging á verkefnum sem varða öryggi og varnir sem og áfallaþol samfélagsins á Norðausturlandi verði könnuð sérstaklega.

Ekki lagðar til beinar aðgerðir varðandi PCC á Bakka

Í skýrslunni eru ekki lagðar til beinar aðgerðir varðandi PCC á Bakka. Þau mál eru ýmist í ferli hjá stjórnvöldum eða utan verksviðs starfshópsins segir jafnframt í tilkynningunni. 

Tekið er fram að starfshópurinn hafi átt gott samstarf við sveitarfélagið Norðurþing í vinnu sinni. Í skýrslunni sé sérstaklega fjallað um tillögur sveitarfélagsins sem miða að því að verja byggð, styrkja atvinnulíf og skapa forsendur fyrir nýja uppbyggingu.

Nánar um tillögur starfshópsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka