Maður í mjög annarlegu ástandi olli usla í miðborginni í gærkvöldi þegar hann dró upp hníf. Lögregla var kölluð á vettvang og virtist maðurinn aftengdur veruleikanum að því frem kemur í dagbók lögreglu. Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa, en lögreglu tókst ekki að ná sambandi við hann vegna vímuástands.
Atvikið er meðal fjölmargra sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti frá klukkan 17 í gær til klukkan fimm í morgun. Á tímabilinu voru 83 mál bókuð í kerfum lögreglu og átta einstaklingar vistaðir í fangageymslu.
Í sama hverfi þurfti lögregla einnig að bregðast við þegar aðili hljóp inn í íbúð og læsti sig inni á salerni. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir íbúa til að fá hann til að yfirgefa heimilið neitaði hann að koma út, og var hann að lokum handtekinn og færður í fangaklefa.
Þá var tilkynnt um líkamsárás í miðborginni þar sem maður réðst á konu sem var að koma úr bifreið sinni. Konan kallaði á hjálp og hvarf maðurinn af vettvangi áður en lögregla bar að garði. Málið er nú í rannsókn.
