Bruni kom upp á Matkránni í Hveragerði í gærkvöldi. Betur fór en á horfðist og segja eigendur í tilkynningu á Facebook að hratt hafi verið brugðist við. Talsverðan reyk hafi lagt frá bakinngangi hússins en að tjón hafi reynst óverulegt.
Þá segir að upptökin hafi verið í aðaltöflu hússins sem stendur við Breiðumörk 10.
„Allt fór vel en viðbragðið var nokkurt enda lagði töluverðan reyk frá bakinngangi hússins.
Fyrir tilstuðlan vina okkar hjá fyrirtækinu Rafmörk, góðra samskipta við tryggingafélagið Sjóva sem og samvinnu við viðbragðsaðila komu allir starfsmenn og gestir heilir frá þessu og eignatjón er óverulegt,“ segir í tilkynningu á Facebook.
Þá kemur fram að kráin muni opna í dag eins og venja er.
