„Þegar Ragnhildur systir okkar greindist með krabbamein 2023 fórum við Auður litla systir mín og Ester móðir okkar á sýninguna hennar Siggu,“ segir Halla Guðmundsdóttir, einn þriggja þýðenda ljóðabókar Siggu þessarar, sem er Sigríður Soffía Níelsdóttir danshöfundur og skáld, en ljóðabókin, Til hamingju með að vera mannleg, var hennar leið til að takast á við erfiða krabbameinsmeðferð í heimsfaraldrinum nýafstaðna.
Efni bókarinnar er nú einnig orðið leikhúsverk runnið undan rifjum Sigríðar Soffíu sem vakti mikla athygli og umtal þegar Þjóðleikhúsið hleypti því á sínar fjalir í vor og ávann höfundi sínum þrjár tilnefningar til Grímuverðlaunanna.
Eru nokkrar aukasýningar verksins í boði núna á haustdögum, í október í tengslum við Bleiku slaufuna, árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins, í tilefni þess að bókin kemur út á norsku verður ein sýning af leikverkinu „Til hamingju með að vera mannleg“ á bleiku kvöldi í Tjarnarbíói 29. október þar sem hús opnar klukkan 19. Hægt verður að styrkja bleiku slaufuna með margvislegum hætti og fer miðasala á viðburðinn fram á Tix.is.
Halla, einn þýðenda ljóðabókar Sigríðar Soffíu yfir á norsku, og um leið ein þriggja systra sem þýddu bókina saman, segir sýninguna hafa hitt þær systur í hjartastað. „Ragnhildur var einmitt þá að byrja í sinni krabbameinsmeðferð og það var dálítið sársaukafullt að sjá sýninguna einmitt vegna þess,“ játar Halla.
Þær systur hafi svo keypt bók Sigríðar Soffíu og sent Ragnhildi, sem búsett er í Noregi. „Hún var nú ekki alveg tilbúin að lesa hana strax en svo fórum við að þýða eitt og eitt ljóð á norsku og senda henni og hún sendi þau áfram á norskar vinkonur sínar sem voru með henni í meðferðinni.
„Hugmyndin varð svo raunsærri og við höfðum að lokum samband við Siggu sem tók rosalega vel í að við þýddum bókina yfir á norsku,“ heldur Halla áfram. Gerðust þessir atburðir í byrjun þessa árs og svo fór að þrjár systur settust við að þýða íslenska ljóðabók yfir á norsku sem hugsanlega er einsdæmi í heimsbókmenntasögunni.
„Við fengum loksins útgefanda og svo rúllaði þetta bara, bókin komin út í Noregi og við sýndum hluta af verkinu þar,“ segir Halla en þær systur fögnuðu útgáfunni um mánaðamótin síðustu með viðhöfn í íslenska sendiherrabústaðnum á Bygdøy í Ósló. „Þetta var hátíðleg stund í sendiherrabústaðnum þar sem boðið var upp á sérstakan kokteilseðil byggðan á íslenska drykknum Eldblómi sem einnig er úr smiðju listakonunnar,“ segir Halla af samkomunni í norsku höfuðborginni.
Leikhúsverkið fjallar um þrautseigju, andlegan styrk og samfélag kvenna sem standa saman og blaðamaður getur ekki setið á sér að spyrja hvort ekki hafi þurft ríkulegan skammt af framangreindu öllu fyrir þrjá þýðendur að setjast yfir sama verk og snúa því á aðra tungu.
Halla gerir lítið úr því. „Ljóðin eru ekki ort undir reglum bragfræðinnar og er á mjög eðlilegu hversdagsmáli. Ég er líka gift Norðmanni og tengdamamma mín er kennari og dætur Ragnhildar ólust upp í Noregi svo margir fengu að svara mörgum spurningum,“ svarar hún.
Auður talar minnstu norskuna af þeim systrum og er auk þess yngst „en eiginlega forystusauðurinn samt svo hún dró okkur svolítið áfram. Engin af okkur hefði getað gert þetta ein en okkur gekk vel að gera þetta saman, sem systur höfum við mismunandi hæfileika, suma þeirra þá sömu en þeir skína í gegn á mismunandi tímum,“ reynir Halla að útskýra samstarfið og Sigríður Soffía tekur við.
„Ég gaf bókina út fyrir tveimur árum og skrifaði hana þegar ég var í meðferð svo þetta var allt mjög nálægt mér. Þetta er gríðarlega persónuleg upplifun svo mér fannst mjög óþægilegt að gefa hana út en það hefur verið mjög ánægjulegt að sjá hve margir tengja beint við efnið, ég bjóst ekki við því en fólk upplifir þetta eins og það sé að lesa sína eigin dagbók hef ég fengið að heyra,“ segir skáldið og danshöfundurinn.
Sigríður Soffía segir því næst frá því hvernig hún vann bókina, sem var tilnefnd til bókmenntaverðlaunanna Maístjörnunnar, með þýðendunum, systrunum þremur, og norska ritstjóranum „og við færðum leikgerðina nær bókinni svo hlutir sem voru gerðir í spuna í leikgerðinni eru nú komnir inn í norsku bókina“, segir hún – útgáfan sé því gjörbreytt og mun safaríkari en fyrsta útgáfan.
„Það hefur verið ótrúlega gaman að vinna þetta áfram og við stefnum á að fá að sýna verkið í Noregi á næsta ári,“ segir höfundurinn og Sigríður Soffía er spurð nánar út í efnistök.
„Ég nota ekkert orðskrúð og enga upphefð, ég reyni bara að segja frá á hreinskilnislegan máta og setja eins mikið hjarta í sýninguna og bókina og hægt er. Þetta er þess vegna ákaflega lágstemmt en um leið mjög hreinskilið,“ segir Sigríður Soffía sem er leikstjóri Til hamingju með að vera mannleg auk þess að vera höfundur en þess má geta að Sigríður Soffía er einnig flugeldasýningahönnuður og ljóðabókin sem hún setti saman í krabbameinsmeðferð og hefur haft slík áhrif er hennar fyrsta höfundarverk á sviði bókmennta.
Hér má smella sér inn á heimasíðu verksins auk þess sem Instagram-notendum er bent á #duermenneskelig þar á bæ.